Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Reglurnar vantar“

20.04.2022 - 20:56
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Formaður KSÍ kallar eftir reglum frá starfshópi ÍSÍ um hæfi leikmanna til að taka þátt í mótum og þjálfun. Sjálf hefði hún ekki teflt fram manni sem sætir lögreglurannsókn vegna meints kynferðisbrots. Hún hafi hins vegar engar heimildir til þess að hlutast til um val á leikmönnum.

 

Eggert Gunnþór Jónsson, sem er sakborningur í kynferðisbrotamáli var í byrjunarliði FH-inga í leik þeirra gegn Víkingi í bestu deildinni á mánudag. Mál hans er til rannsóknar hjá lögreglunni.
 
Vanda Sigurðardótttir, formaður KSÍ segir engar reglur ná utan um þetta í dag.

„Við í rauninni ráðum ekki yfir FH. FH er frjálst félag þannig að það er ekkert í okkar reglum sem að jah við höfum ekkert vald yfir því.“

Starfshópur á vegum ÍSÍ skilaði skýrslu seint á síðasta ári þar sem fjallað var um kynferðislega áreitni og ofbeldi innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Þar var að finna tillögur starfshópsins varðandi vinnulag, viðhorf og menningu.  

„En það fylgdu engar reglur. Því miður. Við erum náttúrulega að vonast til þess að þær reglur komi sem allra fyrst til þess að við höfum þær til þess að halla okkur að en eins og staðan er þá eru þær ekki til.“

En hvað finnst þér um þetta?

„Mér finnst að menn eigi að stíga til hliðar og þannig höfum við unnið en það breytir því samt ekki að eins og staðan er núna þá eru reglurnar ekki tilbúnar. En ég er náttúrulega bara einn partur af þessu. Það er líka stjórn og það er heil íþróttahreyfing sem að er ekki komin með reglur í þessum málum.“

En engu að síður þá eru þetta ákveðin skilaboð. Þarna er verið að hundsa í rauninni þá vinnu sem hefur átt sér stað. Ekki satt?

„Ég vil í rauninni bara ekki tjá mig um það því þetta er bara þeirra mál. Þetta er þeirra leikmaður og þeirra mál. Þannig að þeir verða bara að svara því. Það eru engar reglur til staðar.“

Nei, það eru kannski ekki neinar reglur komnar fram en það er búið að taka á þessum málum og það er búið að fara yfir þau í þessari skýrslu og ég held að það sé öllum nokkuð ljóst hvaða breytingar fólk vill sjá. Fólk vill sjá einhverja breytingu er það ekki? Og þá er þetta ekki alveg í takt við það, - að tefla fram leikmanni sem er sakborningur í máli sem er til rannsóknar hjá lögreglunni?

„Eins og ég segi og segi það einu sinni enn að þetta er eitthvað sem að FH þarf að svara.  Mín skoðun er að þegar rannsókn er í gangi þá eigi menn að stíga til hliðar.“

Fundahöld voru um málið hjá FH í dag. Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH, segir málið á viðkvæmum stað. Áhersla sé lögð á að vinna það faglega og vel. Mörg flækjustig séu í málinu og því sjái forsjármenn félagsins sér ekki fært að tjá sig um það að svo stöddu.

Thelma Jónsdóttir sagði sig úr aðalstjórn FH fyrr á árinu. Hún segir í yfirlýsingu til fréttastofu í dag að hún hafi ekki séð sér fært að sitja lengur í stjórninni. Sitt helsta hlutverk hefði verið að vernda orðspor, ásýnd og hag félagsins. Það hafi verið gegn sinni samvisku og s annfæringu, - og ekki rétt að aðhafast ekkert í málinu sem hér um ræðir.

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV