Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Mismunandi áherslur í leikskólamálum í Kópavogi 

Mynd: Bjarni Rúnars / RÚV
Oddvitar framboðanna átta í bæjarstjórnarkosningunum í Kópavogi greinir á um hvernig leikskólaþjónusta bæjarins eigi að vera. Á framboðsfundi RÚV með oddvitunum voru leikskóla-, skipulags- og húsnæðismál ofarlega á baugi.  

Næst fjölmennasta bæjarfélagið 

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynda meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs, en Samfylking, Píratar og Viðreisn minnihluta. Þrjú önnur framboð freista þess að koma mönnum að í bæjarstjórnarkosningunum; Miðflokkurinn og óháðir, Vinstri hreyfingin grænt framboð og Vinir Kópavogs. Kópavogur er næst fjölmennasta sveitarfélag landsins með um 40 þúsund íbúa.

Heimgreiðsla og hvati til styttri vistunar

Forystufólk framboðanna tókust á um leikskólamálin, en í Kópavogi eru biðlistar líkt og víða annars staðar og óvissa um leikskólapláss brennur á ungum foreldrum. Sigurbjörg Erla Egilsdóttir oddviti P-lista Pírata segir að hennar fólk vilji bjóða ungum foreldrum heimgreiðslu þegar gat myndast á milli fæðingarorlofs og upphaf leikskólagöngu. Einnig að skapa hvata til styttri dagvistunar með því að bjóða gjaldfrjálsan leikskóla í sex tíma á dag.

Fyrst og fremst mönnunarvandi

Theódóra Þorsteinsdóttir oddviti C-lista Viðreisnar segir vanda leikskólanna vera fyrst og fremst mönnunarvanda. Það vanti starfsfólk og þess vegna séu deildir lokaðar.  Viðreisn vilji bæta eða samræma vinnuumhverfi grunn- og leikskólakennara, eins og leikskólakennarar hafi beðið um, í þeirri von að fá fólk til starfa.

Leikskóli síðast byggður 2014

Bergljót Kristinsdóttir oddviti S-lista Samfylkingar segir að síðasti leikskóli í Kópavogi hafi verið byggður árið 2014. Samfylkingin vill gjaldfrjálsan leikskóla fram að hádegi, en eftir hádegi gjaldskylda dagvistun á formi frístundar. Þar með þurfi ekki eins marga leikskólakennara og hægt væri að stýra starfinu betur.

Starfsfólk fæst ekki vegna lágra launa

Karen Elísabet Halldórsdóttir sem skipar efsta sæti M-lista Miðflokks og óháðra segir það umhugsunarefni að margra ára starf ófaglærðra inni á leikskólum sé ekki betur metið til launa en raun ber vitni. Leikskólinn á við mönnunarvanda að etja og fólk sækir ekki þar um vinnu vegna lélegra launa.

Færanlegt húsnæði og val um heimgreiðslu

Ásdís Kristjánsdóttir oddviti D-lista Sjálfstæðisflokks segir óábyrgt að lofa kjósendum fleiri leikskólum þegar ekki fæst fólk til að vinna við skólana. Hún segir raunhæft að fjölga dagvistunarúrræðum fyrir börn frá 12 mánaða aldri sem bíða eftir leikskólaplássi með því að bærinn útvegi færanlegt húsnæði í þeim hverfum þar sem þörfin er mest. Hún vill líka að foreldrar hafi val þannig að þeir geti valið um heimagreiðslur.

Formleg skólalok eins og hjá grunnskóla

Orri Hlöðversson efsti maður B-lista Framsóknarflokks vill fjölbreyttar lausnir; leikskóla, heimgreiðslur og dagmæður. Hann vill val eins og sannur framsóknarmaður eins og hann segir sjálfur. Hann vill formleg skólalok á sumrin hjá leikskólum eins og hjá grunnskólum og þá fái börn og foreldrar frí. Hins vegar verði bærinn á móti að bjóða upp á gæslu og leikjanámskeið í þessum sömu mannvirkjum yfir lokunartímann.

Þarf að manna leikskólana

Helga Jónsdóttir oddviti Y-lista Vina Kópavogs segir að það stefnu framboðsins að hafa sem mest val í leikskólamálum. Hún segir það undarlegt að Hjallastefnan hafi ekki fengið inni hjá Kópavogsbæ eins og í næstu bæjarfélögum.  Vandinn nú sé að takast á við að manna leikskólana.

Leikskólinn verði gjaldfrjáls í áföngum 

Ólafur Þór Gunnarsson efsti maður V-lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs leggur áherslu á að leikskólinn sé fyrsta skólastigið og það eigi að róa að því öllum árum að gera hann gjaldfrjálsan í áföngum. Fyrsta skrefið er að foreldrar eða fjölskyldur borgi ekki fyrir fleira en eitt barn á leikskóla í einu. 

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV