Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Ekki lengur kátt í Höllinni“

20.04.2022 - 23:33
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
„Hún verður að rísa. Við eigum Þjóðarhöll, Laugardalshöll en hún var reist upp úr miðri síðustu öld. Hún er til lítils ef við megum ekki keppa þar eins og raunin verður“, segir Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.

„Við eigum frábær landslið, karla og kvenna og þurfum að geta horft á þessa fulltrúa okkar á heimavelli.“ Guðni segir stöðuna þannig að það sé því miður þannig það verði ekki hægt nema að hér rísi íþróttahöll sem standist allar kröfur samtímans um aðbúnað og viðbúnað.

„Þar að auki nógu stór til þess að hýsa okkur öll sem viljum mæta á leiki og styðja Ísland með ráðum og dáð.“

Þú hefur víða farið og verið duglegur að mæta á kappleiki í útlöndum. Er aðstaðan hér heima eitthvað í líkingu við það sem þú sérð í útlöndum?

Guðni segir íslendinga verða að horfast í augu við að við höfum dregist aftur úr í þessum efnum. Höllin hafi verið góð á sínum tíma og dugði vel. Margir eigi góðar minningar þaðan en nú sé komið að því að þær kröfur sem gerðar eru til húsnæðis af þessu tagi séu á þá leið að það sé ekki lengur kátt í Höllinni.

Sé ekkert umflúið úr þessu

„Til hvers er Þjóðarhöll ef við getum ekki notað hana? Við þurfum að taka okkur taki og blessunarlega veit ég að stjórnvöld, ráðamenn hjá ríki og borg ætla að gera eitthvað í þessu vonum seinna og það verður ekkert umflúið úr þessu.“

Formaður KKÍ og landsliðsþjálfarinn í handbolta hafa báðir sagt að þetta sé gjörsamlega óviðeigandi, þetta sé í nefndum hér og þar. Er það svo, sérðu þetta þannig líka?

„Nú er staðan hreinlega þannig að ef ekki verður hafist handa á næstu mánuðum að þá fáum við ekki að njóta þeirra undanþága sem við höfum notið fyrir körfuknattleik og handknattleik og það er sú staðreynd sem ráðamenn horfast í augu við nú og ætla að bæta úr. Ég veit það og það verður ekkert bakkað með það.  Menn geta ekki komist hjá því að láta aðgerðir fylgja orðum núna“.

Nú hefur þú ekki fjárveitingavald en sterk ítök á ýmsum stöðum. Er ekki bara krafa um það að þetta gerist sem fyrst?

„Krafa og ekki krafa. Auðvitað verðum við að líta svo á að það er margt sem kallar á í þessu landi og fjármagnið er ekki ótæmandi. Við verjum á hverju ári dágóðu fé til uppbyggingar íþróttamannvirkja og viðhalds og endurnýjunar á þeim. Bara hér í smá radíus við Bessastaði eru fjölmargar íþróttahallir og knatthús sem hafa nú kostað sitt.“ Guðni segir að líta verði svo á í þessu samhengi að íslendingar eigi eina Þjóðarhöll sem standi undir nafni. Það sé gott fyrir okkur sem þjóð að geta stutt við okkar fólk á sviði menningar, lista og íþrótta. 

„Við áttum Laugardalshöllina á sínum tíma en hún dugar ekki lengur. Ráðamenn vita þetta og munu bæta um betur, ég veit það. Nú er komið fram á lokamínútu í þessum leik og ef við ætlum að sigra að þá verðum við að spýta í lófana.“

Arnar Björnsson