
750 milljónum varið í viðbrögð vegna afleiðinga COVID
Samráðshópur skipaður af forsætisráðherra kallaði eftir tillögum ráðuneyta um til hvers þyrfti að grípa til skemmri tíma litið en einnig er unnið að mati á til hvaða bragða skuli gripið til lengri tíma.
Fjögur ráðuneyti bera ábyrgð á framkvæmd verkefnanna níu að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins. Úttektir sýna að faraldurinn sjálfur, sóttvarnaraðgerðir og efnahagssamdrátturinn sem fylgdi hafi bitnað verst á því fólki sem þegar tilheyrði viðkvæmum hópum eða átti við einhvers konar vanda að glíma.
Þeim 750 milljónum sem til skiptanna eru í ár verður deilt til aðstoðar við aldraða, þolendur og gerendur kynferðis- og heimilisofbeldis, fatlað fólk, börn í viðkvæmri stöðu og eins til að stytta biðlista.
Eins er ætlun ríkisstjórnarinnar að leggja fé til geðheilbrigðismála fyrir börn og unglinga ásamt geðheilbrigðisteymum í heilsugæslunni. Að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins er ætlunin að hækka framlög til geðheilbrigðismála um 1.650 milljónir króna í áföngum til ársins 2025.