Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Bókanir að líkjast því sem var fyrir heimsfaraldur

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ferðaþjónustan er að braggast örar en spáð hafði verið. Bókanir fyrir ferðasumarið eru orðnar nánast sambærilegar hjá sumum ferðafyrirtækjum og fyrir sumarið 2019.

Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir fyrirtæki í ferðaþjónustu til í ferðamannaslaginn. Bjartsýni ríkir fyrir ferðasumarið 2022.

„Svona eins og staðan er núna eru horfurnar mjög góðar. Við höfum horft upp á stöðuga aukningu eftirspurnar erlendra ferðamanna nú síðustu vikur og mánuði. Það ríkir bara mikil bjartsýni og ég þekki dæmi um það að sum fyrirtæki eru í rauninni komin með 80 til 90 prósent af þeirri sölu sem að komin var á sama tíma árið 2019. Þannig að þetta lofar allt saman mjög góðu.“

Að sögn Bjarnheiðar eru kenningar uppi um það að eftirspurn eftir bílaleigubílum til að aka hringinn á eigin vegum verði meiri í sumar en eftir hefðbundnum hópferðum. Rekja megi þá hegðun að einhverju leyti til heimsfaraldursins.  Tvö skip í það minnsta verða einnig í reglubundnum siglingum umhverfis landið í sumar auk stórra skemmtiferðaskipa sem eru væntanleg.

„Við erum nú svo heppin að flest ferðaþjónustufyrirtæki héldu lífi og það má þakka það að stórum hluta aðgerðum stjórnvalda og bara þrautseigju fólksins í greininni. Þannig að ég held að flest fyrirtæki í ferðaþjónustu séu bara nokkuð vel undir þetta búin og hafi haft ágætis tíma til að undirbúa sig þannig að ég held að við séum bara klár í bylgjuna.“

Þegar heimsfaraldurinn gekk hvað harðast yfir þá voru Íslendingar duglegir að ferðast innanlands. Hvernig lítur það út fyrir þetta sumar? 

„Já það var eitt af því jákvæða sem kom út úr covid faraldrinum að Íslendingar fóru að ferðast í töluverðum mæli innanlands og miklu meira en þeir höfðu gert áður. Margir lærðu bara hreinlega að ferðast um landið og náðu að kynnast þessari frábæru þjónustu sem er búið að byggja upp hér allt í kringum landið. Þannig að við eigum nú von á að þetta haldist í einhverjum mæli af því að það verður náttúrulega ávanabindandi að ferðast hér innanlands ef maður byrjar á því,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.