Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bankasölu harðlega mótmælt á Austurvelli

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Sölu á hlutum í Íslandsbanka var mótmælt á útifundi á Austurvelli í dag. Salan er saga íslenskra stjórnmála, sagði einn ræðumanna, saga af fúski, frændhygli, meðvirkni og algeru ábyrgðarleysi.

Hundruð mættu til fundarins og hrópuðu slagorð fundarins: „Bankasýslan burt, Bjarni burt.“

Eins var þess krafðist að bankasölunni yrði rift. Að fundinum stóðu UNG ASÍ, Jæja hópurinn, Ungir Píratar, Ungir sósíalistar og Ungir jafnaðarmenn. Svalt var á Austurvelli í dag en hiti í fundarmönnum. 

Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata, einn ræðumanna, sagði stærstu ógnina við núverandi valdhafa vera að almenningur neiti að umbera spillingu og fúsk mínútunni lengur.

„Neiti að umbera sölu ríkiseigna til vafasamra einstaklinga á afslætti.  Við þekkjum þessa sögu og höfum heyrt hana oft áður og ekki bara í hruninu. Sagan um einkavæðingu Íslandsbanka er nefnilega saga íslenskra stjórnmála. Saga af fúski, frændhygli, meðvirkni og fullkomnu ábyrgðarleysi.“

Þau sem Fréttastofa tók tali voru óánægðir mjög:

„Mér bara blöskrar salan á Íslandsbanka, hvernig staðið var að henni.“ sagði Margrét Sigríður Steinarsdóttir, „ég vil að Katrín og Bjarni Ben segi af sér. Þau eru vanhæf, sérstaklega Bjarni Ben.“

„Þetta er alveg til skammar, algjörlega,“ sagði Þorsteinn Berg. 

Hvernig hefði átt að standa að þessu? „Ég hef svo sem ekki neina patent aðferð en að það þurfi að kosta 700 milljónir, alveg galið.“ Meinarðu þá fyrir þá sem sáu um að selja? „Já.“ 

Anna Kristinsdóttir sagðist vera óánægðust með fjármálaráðherra og alla en að þetta hafi kannski ekki komið á óvart: 

„Maður vill ekki láta selja bankana, bankann, alla vega ekki svona.“

Óttar Símonarson vill sjá breytingar: „Ég er kominn með nóg af þessu helvítis kjaftæði. Ég vil burt með spillta ríkisstjórn. Ég vil að það sé meira gegnsæi í þessu. Og ég vil ekki að Íslendingum finnist í lagi að þetta gerist núna á tíu ára fresti, það er ekki í lagi.“