Ghebreyesus segir vissulega „afar mikilvægt“ að veita Úkraínu alla þá aðstoð sem hægt er að veita, þar sem stríðið þar hafi „áhrif á heiminn allan.“ En neyðin í Tigray-héraði í Eþíópíu, í Jemen, í Afganistan og Sýrlandi fær ekki sömu athygli, segir Ghebreyesus.
„Ég er ekki viss um að heimsbyggðin gefi lífi svartra og hvítra jafn mikið vægi í raun,“ sagði hann á fréttafundi í gær. „Ég verð að vera afdráttarlaus og og segja það hreint út að heimurinn kemur ekki eins fram við mannkynið allt. Sumir eru jafnari en aðrir. Og það er sársaukafullt að segja þetta. Því að ég sé þetta. Afar erfitt að kyngja þessu, en þetta er að gerast,“ bætti hann við.
Mikil neyð en lítil hjálp
Ghebreyesus, sem er sjálfur frá Tigray-héraði í Eþíópíu, benti á að Sameinuðu þjóðirnar hefðu áætlað að senda þurfi minnst 100 flutningabíla á dag til héraðsins, fulla af nauðsynjum á borð við vatn, mat og sjúkragögn, til að fullnægja brýnustu þörf íbúa. Aðeins lítið brot af þessu berst þó til átakasvæðanna, þar sem þúsundir óbreyttra borgara hafa fallið og milljónir eru á vergangi.
Sameinuðu þjóðirnar hafa líka ítrekað sagt neyð almennings í hinu stríðshrjáða og örfátæka Jemen meiri en nokkurs staðar annars staðar á jarðríki. Þar hafa hátt í 400.000 manns fallið í valinn í stríðsátökum sem staðið hafa linnulítið frá haustinu 2014 og þjóðir heims hafa aldrei farið ýkja nærri því að svara kalli hjálparstofnana Sameinuðu þjóðanna eftir fjárframlögum vegna neyðarinnar þar.
Og í Sýrlandi hefur borgarastyrjöld geisað í ellefu ár. Yfir hálf milljón manna hefur týnt lífinu í stríðinu og milljónir eru enn á flótta, innan og utan Sýrlands. Stríðsglæpir hafa verið og eru enn framdir í öllum þessum styrjöldum, sem allar bitna verst á þeim sem minnst mega sín.