Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Verðbólga nær hámarki í júní

13.04.2022 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samkvæmt verðbólguspá Landsbankans nær verðbólga hámarki í júní, gert er ráð fyrir að hún mælist þá um sjö prósent. Ljóst er að verulegar verðhækkanir verða á mat og drykk.

Hagfræðideild Landsbankans spáir tæplega 0,7 prósent hækkun vísitölunnar milli mars og apríl. Gangi spáin eftir verður tólf mánaða verðbólga óbreytt í 6,7 prósent milli mars og apríl.  Samkvæmt spánni mun verðbólgan vaxa aðeins fram á mitt ár og verði þá komin upp fyrir 7 prósent. Upp frá því taki við hæg verðbólguhjöðnun. 

Mikil hækkun á mat og drykk

Þeir liðir sem vógu hvað mest til hækkunar verðlags milli mars og apríl voru matur og drykkur og reiknuð húsaleiga. Þessir tveir liðir vógu um 60 prósent af heildarhækkun verðlags milli mánaðanna. Gangi spáin eftir verður 12 mánaða hækkun matvöru 5,3 prósent og að matarkarfan hækki um 1,4 prósent núna í apríl.

Ísland er ekki eitt á báti þegar kemur að mikill verðbólguhækkun en verðbólga er í  hæstu hæðum í flestum viðskiptalöndum okkar. Í Bandaríkjunum mælist 12 mánaða verðbólga 7,9 prósent. Mikil hækkun hefur verið á hrávöru undanfarna mánuði og olíuverð hefur hækkað mikið eftir innrás Rússa í Úkraínu. Verðhækkanir eiga eftir að skila sér að fullu í verðbólgu í viðskiptalöndum Íslands en gera má ráð fyrir að verðbólguþróun erlendis muni skila sér hingað í einhverju mæli.  

Verðlag heldur áfram að hækka 

Samkvæmt spánni heldur verðlag áfram að hækka á næstu mánuðum. Í maí og júní er gert ráð fyrir 0,5 prósent hækkun, en að verðlag verði óbreytt milli júní og júlí. Spáin telur að verðbólga verð komin undir sex prósent í lok október og verði há fram í lok árs eða um 5,5 prósent.