Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ásdís Halla skipuð ráðuneytisstjóri

Ráðuneytisstjóri háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið
 Mynd: Stjórnarráðið
Ásdís Halla Bragadóttir hefur verið skipuð í embætti ráðuneytisstjóra í háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu. Í byrjun árs var Ásdís skipuð ráðuneytisstjóri til þriggja mánaða, en umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hafi ekki haft lagaheimild til þess að skipa Ásdísi í embættið án auglýsingar.

 Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Í tilkynningunni segir að átta umsóknir hafi borist um embættið, og að tveir þeirra hafi verið metnir hæfastir. Í framhaldinu boðaði ráðherra viðkomandi í viðtal og var það mat ráðherra að Ásdís Halla væri hæfust til að taka við embætti ráðuneytisstjóra.  

Enn fremur starfaði Ásdís sem verkefnisstjóri við undirbúning stofnunnar háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. 

Fram kemur í tilkynningunni að Ásdís hafi lokið meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Harvard háskóla, sem og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefir verið bæjarstjóri í Garðabæ, forstjóri BYKO og aðstoðarmaður menntamálaráðherra, auk þess að hafa átt sæti í háskólaráði HR, háskólaráði Kennaraháskólans, og stjórn NOVA. 

„Síðustu ár hefur hún komið að stofnun og rekstri farsælla nýsköpunarfyrirtækja í heilbrigðis- og velferðarþjónustu ásamt því að sinna ritstörfum. Þá hefur Ásdís Halla víðtæka reynslu af stefnumótun og áætlanagerð bæði í störfum sínum hjá hinu opinbera og úr atvinnulífinu. Hún hefur mikla reynslu sem stjórnandi, hefur borið ábyrgð á fjölbreyttum rekstri og stýrt fjölda starfsmanna frá árinu 2000. Ásdís Halla hefur góða og fjölbreytta þekkingu á málaflokkum ráðuneytisins, skýra framtíðarsýn fyrir nýtt ráðuneyti og breytt verklag,“ segir í tilkynningunni. 

peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV