Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segir Rússa ná markmiðum sínum í Úkraínu

Russian President Vladimir Putin, left, Belarusian President Alexander Lukashenko, centre, and Russian Roscosmos head Dmitry Rogozin walk after arriving to the Vostochny cosmodrome outside the city of Tsiolkovsky, about 200 kilometers (125 miles) from the city of Blagoveshchensk in the far eastern Amur region Tsiolkovsky , Russia, Tuesday, April 12, 2022. Russia on Tuesday marks the 61th anniversary of Gagarin's pioneering mission on April 12 1961, the first human flight to orbit that opened the space era. (Mikhail Klimentyev, Sputnik, Kremlin Pool Photo via AP)
Vladimír Pútín og Alexander Lukashenko við komuna til Amur héraðs í dag.  Mynd: AP - Sputnik
Hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu voru óumflýjanlegar að sögn Vladimírs Pútíns forseta. Kanslari Austurríkis, sem ræddi í gær við forsetann um Úkraínustríðið segist vonlítill um að hægt verði að tala um fyrir honum. Enn er barist um borgina Mariupol. Óstaðfestar fregnir herma að Rússar hafi beitt efnavopnum þar.

Pútín hélt í dag til fundar við Alexander Lukashenko, forseta Hvíta-Rússlands, í geimferðamiðstöð í Amur héraði í suðausturhluta Rússlands. Þar ræddu þeir stríðið í Úkraínu og viðbrögð við efnahagslegum refsiaðgerðum vegna þess.

Rússneskir fjölmiðlar höfðu eftir Pútín að „hinar sértæku aðgerðir rússneska hersins í Úkraínu“, eins og hann orðaði það, hefðu verið óumflýjanlegar. Hermennirnir sagði hann að sýndu mikið hugrekki, þrátt fyrir fréttir af miklu mannfalli og kvaðst þess fullviss að þeir næðu þeim „göfugu markmiðum“ sem þeim hefðu verið sett.  Þá ítrekaði hann fullyrðingar um að rússneski herinn hefði verið sendur til Úkraínu þar sem verið væri að fremja fjöldamorð á rússneskum aðskilnaðarsinnum í austurhéruðum landsins.

Karl Nehammer, kanslari Austurríkis, hitti Vladimír Pútín í Moskvu í gær, fyrstur þjóðarleiðtoga eftir að innrásin hófst í Úkraínu. Hann sagðist í viðtali við austurríska ríkisútvarpið því miður vera vonlítill um að hægt yrði að tala um fyrir forsetanum. Ekki hefði verið um neinn vinafund að ræða en hann hefði reynt að miðla til hans staðreyndum um stríðið án sýnilegs árangurs.

Grunur um að efnavopnum hafi verið beitt

Bardagar um borgina Mariupol standa enn. Úkraínskir hermenn segjast vera umkringdir og orðnir skotfæralitlir. Óstaðfestar fréttir hafa borist af því að Rússar hafi beitt efnavopnum í borginni.  Bandaríkjamenn og Bretar segja að málið verði rannsakað í þaula og gripið til viðeigandi aðgerða reynist slíkum vopnum hafa verið beitt.