Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Leita fólks undir aurskriðum í kapphlaupi við tímann

epa09885295 A handout photo made available by the Philippine Coast Guard (PCG) shows rescuers assist villagers in a raft in a flooded village in Panitan, Panay island, Philippines, 12 April 2022. According to local authorities reports, scores of villagers were burried from landslides in the central and southern Philippines brought by Typhoon Megi.  EPA-EFE/PCG / HANDOUT BEST QUALITY AVAILABLE HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - PCG
Björgunarsveitir vinna nú baki brotnu við leit að fólki sem varð undir aurskriðum sem féllu á þorp eftir ofsaveður og úrhelli á Filippseyjum. Talið er að 28 séu látin eftir að hitabeltisstormurinn Megi fór með ógnarkrafti yfir eyjarnar.

Herinn hefur gengið til liðs við strandgæsluna, lögreglu og slökkvilið. Á átjánda þúsund þorpsbúa neyddust til flýja heimili sín meðan stormurinn gekk yfir miðhluta Filippseyja, færði hús á kaf, rauf vegi og olli víðtæku rafmagnsleysi.

Einna verst varð Leyte-hérað úti en þar er talið að tuttugu og tveir séu látnir og yfir eitt hundrað slösuðust. Enn er 27 saknað eftir aurskriður sem féllu á fjölda þorpa í héraðinu.

Þrír til viðbótar fórust í Negros-héraði og aðrir þrír á eynni Mindanao. Marissa Miguel Cano, upplýsingafulltrúi Baybay-borgar í Leyte, segir veðurfarið algerlega hafa umturnast.

Nú á að vera þurrkatími en Cano segir að kenna megi loftslagsbreytingum um viðsnúninginn. Cano segir ekki óalgengt að aurskriður falli á svæðinu, þar sem ræktaður er maís, hrísgrjón og kókoshnetur.

Hins vegar sé reynslan sú að skriðurnar séu hvorki stórar né mannskæðar. Mörgum íbúum tókst af sjálfsdáðum að flýja skriðurnar, öðrum var fljótlega bjargað úr eðjunni en örlög fjölda fólks eru enn á huldu.