Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Átti „beinskeyttan, opinn og óvæginn“ fund með Pútín

11.04.2022 - 19:59
Mynd: EPA-EFE / AUSTRIAN CHANCELLERY
Enn geisa hörð átök um borgina Mariupol og úkraínsk stjórnvöld óttast að Rússar séu að undirbúa stórstókn í austurhluta landsins. Kanslari Austurríkis fór til Rússlands til fundar við Vladimír Pútín í dag, fyrstur evrópskra leiðtoga frá því stríðið braust út.

Beinskeyttur, opinskár og óvæginn. Þannig var fundur forseta Rússlands og kanslara Austurríkis að sögn þess síðarnefnda. „Ég get ekki sagt að ég sé bjartsýnn eftir fundinn með Pútín. Undirbúningur fyrir sóknina er greinilega mjög öflugur,“ sagði Karl Nehammer, kanslari Austurríkis, við fjölmiðla eftir fundinn. 

Óttast stórsókn Rússa í austurhlutanum

Undir þetta tekur forseti Úkraínu, stjórnvöld þar í landi óttast yfirvofandi stórsókn í austurhluta landsins. Búist er við því að Rússar nái yfirráðum í Mariupol á allra næstu dögum. Í dag bárust fregnir af því að skotfæri úkraínska hersins væru á þrotum í borginni, en borgaryfirvöld Mariupol neita því. Enn geisa harðir bardagar um borgina og borgarstjórinn segir að minnst tíu þúsund almennir borgara hafi verið drepnir. 

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa ríflega fjórar og hálf milljón flúið frá Úkraínu frá því Rússar réðust inn í landið. Fleiri en sjö milljónir til viðbótar eru á flótta innan Úkraínu. Anders Ladekarl, framkvæmdastjóri danska Rauða krossins, sem er í Úkraínu, segir að enn streymi fólk frá austurhluta landsins. „Við sjáum nú að það eru þau berskjölduðustu, gamalt fólk og farlama sem nú flýr frá svæðunum, sem þau hafa verið beðin um að yfirgefa.“ 

epaselect epa09880640 Local resident sits near a destroyed apartment block in the city of Borodyanka near Kyiv, Ukraine, 09 April 2022. Russian troops entered Ukraine on 24 February resulting in fighting and destruction in the country, and triggering a series of severe economic sanctions on Russia by Western countries.  EPA-EFE/OLEG PETRASYUK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Frá borginni Borodyanka, nærri Kænugarði.

Hann segir fólk ekki lengur bíða í röðum við landamærin eftir því að komast úr landi, heldur séu flest þeirra sem hafa hrakist á flótta nýverið á vergangi í eigin landi. „Hjálparstarf okkar hefur ekki orðið auðveldara. Það er þörf á meiri aðstoð handa þessu fólki en því yngra sem við hjálpuðum áður og var á hrakhólum innanlands,“ segir Ladekarl. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV