Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir nauðsynlegt að breyta kosningalögum

Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - rúv
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að nýjar hæfisreglur kjörstjórnarmanna hafi sett kosningaundirbúning í mörgum sveitarfélögum í algjört uppnám. Hún telur að mistök hafi verið gerð þegar kosningalögum var breytt.

Ný kosningalög tóku gildi um áramótin og reynir í fyrsta skipti á þau í komandi sveitarstjórnarkosningum. Sérstakar breytingar voru gerðar á reglum um hæfi kjörstjórnarmanna. Áður gat fólk ekki tekið sæti í kjörstjórn ef foreldrar, börn, systkini eða maki var í framboði. Nú á það sama við um afa, ömmur, systkini foreldra og maka þeirra. Einnig tengdabörn, barnabörn og nánast öll önnur fjölskyldutengsl.

Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að þetta hafi valdið miklum vandræðum og erfiðlega hafi gengið að manna kjörstjórnir.

„Kjörstjórnir voru auðvitað löngu mannaðar. Flest sveitarfélög og öll sveitarfélög skipa kjörstjórnir í upphafi kjörtímabils, um leið og þeir skipa í aðrar nefndir. En síðan hafa þessar breytingar á lögunum sett þessa skipan mjög víða í algjört uppnám. Það er ljóst að víða þarf jafnvel meirihluti kjörstjórnar að víkja,“ segir Aldís.

Hún segir að á mörgum stöðum hafi reynslumiklir kjörstjórnarmenn þurft að víkja.

„Þannig að þetta er mjög bagalegt og það er í raun mjög alvarlegt að þetta skuli hafa gerst með þessum hætti,“ segir Aldís.

Hún telur þó ekki að þetta setji kosningarnar sjálfar í uppnám.

Getur verið að það hafi hreinlega verið gerð mistök þegar þessum lögum var breytt?

„Já, ég held að það sé ekki annað hægt en að orða það þannig. Það er gengið miklu lengra í þessari breytingu heldur en sveitarstjórnarlög almennt gera ráð fyrir. Það að gera einhvern vanhæfan til að taka þátt í allri vinnu kjörstjórnar af því að amma hans situr neðarlega á lista einhvers staðar er náttúrulega ekki í anda neins þess sem við vinnum eftir hvað varðar hæfi opinberra fulltrúa. Ég held að það sé alveg ljóst að það verður að breyta þessum lögum en skaðinn er skeður hvað varðar komandi sveitarstjórnarkosningar. Þannig að núna þurfa kjörstjórnir að búa sig undir nýjan og breyttan veruleika og nýir aðilar þurfa að taka sæti í kjörstjórnum núna. Þannig að þessar kosningar fara fram með þessum hætti en það er ljóst að þessum lögum verður að breyta,“ segir Aldís.