Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Bandaríkin heimila sendifulltrúum að yfirgefa Shanghai

09.04.2022 - 00:25
epa09878028 An ambulance runs through an empty street in Shanghai, China, 08 April 2022. Shanghai is currently under a strict Covid-19 lockdown with residents reportedly complaining about food shortages.  EPA-EFE/WANG GANG CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - FEATURECHINA
Bandaríkjastjórn ákvað í dag að heimila því starfsfólki sem ekki hefur brýnum skyldum að gegna við ræðismannskrifstofuna í kínversku borginni Shanghai að halda þaðan. Jafnframt var ákveðið að ráðleggja frá ferðalögum til Kína vegna harðra samkomutakmarkana.

Í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins kemur fram að heimildin nái einnig til fjölskyldna starfsfólksins. Ráðuneytið varaði bandaríska ríkisborgara við ferðum til Shanghai í ljósi harðra sóttvarnaráðstafana. Sú hætta er talin á ferðum að börn og foreldrar verði aðskilin. 

Kínverjar hafa undanfarnar vikur glímt við mestu útbreiðslu kórónuveirusmita frá upphafi faraldurs og í Shanghai hefur útgöngubann að einhverju eða öllu leyti verið í gildi um tveggja vikna skeið.

Það þýðir að 25 milljónum íbúa þessarar stærstu borgar Kína og miðstöð viðskipta í landinu hefur verið skipað að halda sig heima við. Ríkisstjórnin fyrirskipaði að börn með COVID-19 skyldu aðskilin frá ósmituðum foreldrum en dregið var úr þeirri kröfu vegna harðrar andstöðu.

Kórónuveirufaraldurinn á uppruna sinn í kínversku borginni Wuhan en þarlendis hefur svokölluð núllstefna verið rekin gegn faraldrinum.

Flest önnur ríki hafa hætt því en þannig hefur  hingað til tekist að halda faraldrinum í skefjum, oftar en ekki með ströngu útgöngubanni. Það hefur þó ekki dugað í glímunni við omíkron-afbrigðið.