Mark Milley, yfirmaður herforingjaráðs Bandaríkjanna, tjáði í dag nefnd bandaríska þingsins þá persónulegu skoðun sína að ekki beri að breyta stöðu sérsveitanna.
Jalina Porter, talskona bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði Joe Biden forseta sammála Milley um að þar færu hryðjuverkasamtök. Hún virtist þó gefa til kynna þann möguleika að byltingarvörðurinn yrði afmáður af hryðjuverkalistanum.
Byltingarvörðurinn og sérsveitir hans hafa verið á hryðjuverkalista Bandaríkjanna frá því skömmu eftir að Donald Trump forseti sagði upp kjarnorkusamningnum árið 2018.
Byltingarvörðurinn lenti þar vegna stuðnings Írana við stjórn Assads Sýrlandsforseta, Húta í Jemen og líbönsku Hezbollah-samtökin. Viðræður um framtíð og framkvæmd samningsins hafa staðið yfir frá því í nóvember en staða byltingarvarðarins hefur tafið að samkomulag náist.
Krafa Írana um að hann verði fjarlægður af hryðjuverkalista hefur valdið gremju bandarískra stjórnmálamanna, einkum í stjórnarandstöðu.
Stjórnmálaskýrendur telja fræðilega mögulegt að byltingarvörðinn verði fjarlægður af listanum en sérsveitunum haldið þar, sem gæti bent til þess að Bandaríkjamenn væru tilbúnir til málamiðlunar.
Rob Malley, aðalsamningamaður Bandaríkjanna, sagði í mars að Bandaríkin hygðust ekki aflétta refsiaðgerðum gegn byltingarverðinum og Porter lagði nú áherslu á að samkomulag við Írani væri hvorki aðsteðjandi né öruggt.