Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Réttarhöld vegna morðs Khashoggis flutt til Sádi-Arabíu

epa08715123 People hold pictures of Jamal Khashoggi during an event marking two-year anniversary of the assassination of Saudi dissident journalist Jamal Khashoggi at the Saudi Consulate in Istanbul, Turkey, 02 October 2020. Saudi dissident journalist Jamal Khashoggi, whose remains have not been found, was assassinated at the Saudi Arabian consulate building in Istanbul on 02 October 2018.  EPA-EFE/TOLGA BOZOGLU
 Mynd: EPA
Málflutningi lýkur senn í Tyrklandi yfir 26 mönnum sem grunaðir eru um að hafa banað blaðamanninum Jamal Khashoggi árið 2018. Enginn sakborninga er viðstaddur réttarhöldin sem verða færð til Riyadh, höfuðborgar Sádi-Arabíu.

Mannréttindasamtök mótmæla þeirri ákvörðun tyrkneskra stjórnvalda hástöfum og fullyrða að hún komi í veg fyrir að réttlæti fáist í málinu. Málflutningur hófst 2020 en mjög stirt hefur verið milli ríkjanna tveggja. 

Seinast sást til Khashoggis á lífi þegar hann gekk inn í ræðismannskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl 2. október 2018. Að sögn var erindi hans að sækja nauðsynleg skjöl vegna fyrirhugaðs brúðkaups hans og Hatice Cengiz, tyrkneskrar unnustu hans.

Hún beið hans fyrir utan skrifstofuna meðan aftökusveit myrti hann að því er fram kemur í gögnum tyrkneskra og bandarískra yfirvalda. Lík hans á að hafa verið sundurlimað og komið fyrir. Líkið er enn ófundið.

Tilfærsla málsins samþykkt í síðustu viku

Khashoggi var dálkahöfundur fyrir dagblaðið Washington Post og í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum. Hann var afar gagnrýninn á stjórnvöld í heimalandinu og ekki síst ríkisarfann Mohammed bin Salman krónprins. 

Til að lægja öldurnar í deilum ríkjanna samþykkti Bekir Bozdag dómsmálaráðherra Tyrklands í síðustu viku að málið verði fært sádiarabískum yfirvöldum. Það var að beiðni tyrknesks saksóknara. 

Sá sagði málið dragast á langinn þar sem ekki væri unnt að fylgja skipunum réttarins í ljósi þess að hinir ákærðu væru útlendingar og fjarverandi. Mannréttindavaktin gagnrýndi ákvörðunina harðlega og sagði hana koma í veg fyrir að réttlætinu verði framfylgt. 

Mannréttindafrömuðir æfir

Michael Page, aðstoðarforstjóri samtakanna í Miðausturlöndum, segir ákvörðunina einnig styrkja stjórnvöld í Sádi-Arabíu í þeirri trú að þau komist upp með morð. 

Bandarískar leyniþjónustustofnanir og fleiri ríkja fullyrða að Mohammed bin Salman, krónprins og utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, beri ábyrgð á dauða blaðamannsins. 

Agnes Callamard, framkvæmdastjóri Amnesty International, segir að Tyrkir færi málið nú vísvitandi í hendur þeirra sem mesta ábyrgð beri. Hún fór fyrir rannsókn Sameinuðu þjóðanna sem leiddi í ljós trúlegar sönnur fyrir aðild Salmans að morðinu og tilraun til yfirhylmingar. 

Í september 2020 mildaði dómstóll í Sádi-Arabíu dauðadóm yfir átta manns niður í allt að tuttugu ára fangelsisvist fyrir morðið. Sameinuðu þjóðirnar og mannréttindafrömuðir gagnrýndu réttarhöldin og fullyrtu að höfuðpaurarnir gengju enn lausir.

Tyrkir héldu málinu áfram

Stjórnvöldum í Sádi-Arabíu til mikillar furðu kröfðust Tyrkir þess að halda málinu áfram. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti staðhæfði að fyrirskipunin um að bana Khashoggi hefði borist úr æðstu lögum stjórnkerfis Sádi-Arabíu. 

Við tók nokkurra ára þrýstingur þarlendra yfirvalda á Tyrki og tyrkneskan efnahag. Til að mynda var beitt viðskiptabanni á innflutning tyrkneskra framleiðsluvara til landsins. Mevlut Cavusoglu utanríkisráðherra Tyrklands heimsótti Sádi-Arabíu á síðasta ári með það að markmiði að bæta samskiptin.

Með því að færa Khashoggi málið í hendur Sáda telja Tyrkir sig hafa rofið seinustu hindrunina að eðlilegum stjórnmálasamskiptum ríkjanna. Hatice Cengiz, unnusta Khashoggis, hvatti tyrknesk stjórnvöld í febrúar til að láta málið ekki frá sér. 

Erdogan hefur lagt sig í líma við að bæta samskipti við ríki á svæðinu, þeirra á meðal Egyptaland og Sameinuðu arabísku furstadæmin. Tyrkland hefur smám saman einangrast þannig að erlend fjárfesting í landinu er nánast að engu orðin. Erdogan greindi frá því í janúar að til stæði að heimsækja Sádi-Arabíu.