Ríkisfjölmiðill landsins greindi frá þessu en ákvörðunin er alger umbylting fyrir fjölþjóðaherinn sem barist hefur gegn uppreisnarmönnum Húta. Í dag er síðasti dagur friðarviðræðna í Riyadh, höfuðborg Sádí Arabíu.
„Ég framsel vald mitt óafturkallanlega til þessa leiðtogaráðs,“ sagði Hadi í ávarpi sínu. Ráðið verður skipað átta mönnum undir forystu Rashad al-Alimi fyrrverandi innanríkisráðherra og ráðgjafa Hadis forseta.
Ríkisstjórn Jemen, sem hefur alþjóðlega viðurkenningu, situr í borginni Aden eftir að uppreisnarmenn Húta hröktu hana frá höfuðborginni Sanaa árið 2014. Sjálfur hefur Hadi haldið til í Sádí Arabíu frá árinu 2015.
Hundruð þúsunda hafa látist beint eða óbeint af völdum átakanna og milljónir lent á vergangi. Um 80% af 30 milljónum landsmanna þurfa á utanaðkomandi aðstoð að halda við að draga fram lífið.
Sameinuðu þjóðirnar segja ástandið í Jemen vera einhverja mestu mannúðarkrísu heims.
Sádar heita fjárhagsstuðningi
Mohammed bin Salman krónprins og í raun æðstráðandi í Sádí Arabíu hét umsvifalaust og tíðindi bárust af ákvörðun Hadis, þremur milljörðum bandaríkjadala til stuðnings Jemenum. Hluti þess fjár kemur frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Hútar eru dyggilega studdir af Íransstjórn en fjölþjóðaher undir forystu Sádí-Araba styður stjórnarher landsins. Vonir standa til að tveggja mánaða vopnahlé haldi en því var komið á 2. apríl að undirlagi Sameinuðu þjóðanna.
Vopnahléið hófst meðan á viðræðum stóð í Riyadh án þátttöku Húta, sem þvertóku fyrir að halda viðræður á landsvæði „óvinarins“.
Hans Grundberg, sérlegur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðana í Jemen, segir talsvert hafa dregið úr ofbeldisverkum frá upphafi vopnahlés en hvor fylking hefur sakað hina um minniháttar vopnahlésbrot.
Sumir sérfræðingar voru efins um að samningaviðræðurnar skiluðu einhverju í fjarveru Húta, en fréttir dagsins gætu orðið til þess að sameina á stundum sundraða andstæðinga þeirra um framtíðarviðræður.
Hadi segir mikilvægasta verkefni ráðsins verða að ræða við Húta um að tryggja vopnahlé um gjörvallt landið. Í framhaldinu annist samningaviðræður varðandi framtíðarskipan stjórnmála í Jemen.
Peter Salisbury, sérfræðingur í málefnum Jemen, segir ákvörðun forsetans vera einhverja mestu breytingu sem orðið hefur á samsetningu þess hóps sem barist hefur gegn uppreisnarmönnum Húta.