Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Búin að stefna að þessu frá fyrsta árinu í landsliðinu

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Búin að stefna að þessu frá fyrsta árinu í landsliðinu

07.04.2022 - 18:45
Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í fótbolta, segir tilfinninguna sæta að hafa leikið sinn 100. landsleik í dag. Þá hafi það verið bónus að hennar hundraðasti leikur hafi skilað þremur stigum og að hún hafi skorað. Ísland vann 5-0 sigur á Hvíta-Rússlandi í dag og fór á topp C-riðils í undankeppni HM 2023.

„Hver leikur er ótrúlega mikilvægur. Þrjú stig úr hverjum leik er bara mikilvægt svo að við náum markmiðum okkar og þetta var virkilega fagmannlega gert hjá okkur í dag. Mörg mörk og náðum að halda hreinu svo þetta var bara mjög vel gert.“

Dagný lék í dag sinn 100. landsleik og segir tilfinninguna frábæra. „Ég viðurkenni að þetta var mjög sætt að ná 100 leikjum. Þetta er eitthvað sem ég er búin að stefna að frá fyrsta árinu mínu í landsliðinu þegar Kata Jóns var fyrst kvenna til að ná 100 leikjum. Þetta er búinn að vera langur vegur, mikið um covid, ég fékk sjálf covid, mikið um meiðsli og svo varð ég ólétt, þannig þetta er búinn að vera langur vegur og bara virkilega gaman að ná 100 og sérstaklega að ná í þrjú stig og auðvitað alltaf gaman að skora mark líka.“

Miklar tilfinningar í leik dagsins

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir gerði tvö mörk í dag. Hún segist fyrst og fremst glöð með að liðið hafi klárað leikinn á þann hátt sem það gerði. „Það voru tveir leikmenn að spila hundraðasta leikinn sinn í dag, Sara að koma til baka og það var mikið um tilfinningar en það var bara fyrst og fremst mikilvægt að ná í þrjú stig og það var það besta.“

Ísland mætir Tékklandi á þriðjudag og Karólína segir fullt tilefni til bjartsýni fyrir þann leik. „Við höldum okkar fótbolta áfram, spilum agaðan varnarleik og reynum að sækja á eins góðan sóknarleik og við getum og vonandi náum við í þrjú stig þar,“ segir Karólína Lea.

Viðtalið við Dagnýju má sjá í spilaranum hér að ofan og viðtalið við Karólínu hér að neðan.

Mynd: Mummi Lú / RÚV