Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Segir þá grimmustu í Bucha vera leyniþjónustumenn

epa09872253 A picture taken during a visit to Bucha organized by Kyiv authorities shows a general view of a street with destroyed Russian military machinery in the recaptured by the Ukrainian army Bucha city near Kyiv, Ukraine, 05 April 2022. Russian troops entered Ukraine on 24 February resulting in fighting and destruction in the country, and triggering a series of severe economic sanctions on Russia by Western countries.  EPA-EFE/SERGEY DOLZHENKO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Iryna Venediktova, ríkissaksóknari Úkraínu, segir að rannsókn standi yfir á hátt í sex þúsund atvikum sem flokkast geti sem stríðsglæpir af hálfu Rússa. Rannsóknin beinist meðal að framferði þeirra í Bucha og byggist á lögum um framferði í stríði. Íbúi í Bucha segir að hernám borgarinnar hafi breyst eftir að þangað komu eldri hermenn úr röðum leyniþjónustunnar.

Venediktova segir að sjónum sé einnig beint að brotum á alþjóðlegum mannréttindalögum. AFP-fréttaveitan hefur eftir Olenu sem býr í Bucha að allt hafi farið á versta veg þegar eldri og harðneskjulegri hermenn komu inn í borgina.

Olena er tveggja barna móðir á fimmtugsaldri sem ekki vill greina frá ættarnafni sínu. Hún segir að framferði eldri hermannanna hafi verið „grimmdarlegt“ í samanburði við þá yngri sem hertóku borgina 27. febrúar, skömmu eftir innrásina. 

„Þeir skutu mann til bana sem var á leiðinni í stórmarkaðinn. Það gerðist beint fyrir framan mig,“ segir Olena. Rússneskar hersveitir höfðu Bucha, sem er um 30 kílómetra norðvestur af miðborg Kyiv, á valdi sínu í heilan mánuð.

Úkraínuher endurheimti borgina á fimmtudaginn var. Fjöldi líka borgaralega klædds fólks lágu um götur og stræti þegar Úkraínuher kom þangað. Borgarstjóri Bucha segir 280 almenna borgara liggja í fjöldagröf.

Olena segir enga hermenn hafa verið í borginni fyrir hernám Rússa, aðeins óvopnaðir verðir sem hún segir hafa flúið þegar rússnesku hersveitirnar komu inn í Bucha. 

Sérsveitir leyniþjónustunnar 

Allan marsmánuð dvöldu Olena og börn hennar tvö, sjö og níu ára, í rafmagnslausum kjallara undir fjögurra hæða fjölbýlishúsi. Þar voru einnig aðrir íbúar hússins. 

„Fyrst komu aðeins ungir hermenn. Um það bil tveimur vikum síðar birtust eldri hermenn, þeir voru yfir fertugu,“ segir Olena og bætir við að þeir hafi verið harðlyndir. 

„Þeir komu mjög illa fram við alla. Eftir að þeir komu hófst fjöldamorðið,“ segir Olena.

Rússnesk stjórnvöld hafa þvertekið fyrir öll morð á almennum borgurum í Bucha og Dmitry Peskov, talsmaður Rússlandsstjórnar, sagði sérfræðinga varnarmálaráðuneytisins hafa greint margvíslegar falsanir í myndefni frá Bucha.

Olena segir hermennina hafa verið vel vopnum búna og íklædda svörtum og dökkgrænum einkennisbúningum. Þannig hafi þeir verið frábrugðnir hefðbundnum búningum rússneskra hermanna. 

„Það voru nokkrir góðir menn meðal Rússanna,“ segir Olena sem segir þá hörðustu hafa verið í þjónustu FSB, leyniþjónustu Rússlands. Olena segir að konum einum hafi verið heimilað að sækja vatn eða mat en karlmenn máttu alls ekki fara út.

„Þegar ég spurði hermennina hvernig ég ætti að brauðfæða börnin mín, færðu þeir mér mat. Það voru þeir sem sögðu mér að það væri FSB sem bönnuðu okkur að vera á ferli, að þeir væru liðsmenn afar ofbeldisfullra sérsveita. Þetta sögðu Rússar um aðra Rússa!“

Olena lýsir því þegar kona og tveir karlar fóru út með rusl snemma morguns. Annar þeirra átti herþjónustu að baki en þeir áttu ekki afturkvæmt. „Það voru konurnar úr byggingunni okkar sem fundu þá þegar þær fóru út að safna eldiviði. Þeir lágu í blóði sínu á jörðinni með skotsár á líkamanum.“

Olena segir að leyniþjónustumennirnir hafi kallað hana og aðra svikara fyrir að hafa ekki yfirgefið borgina. „Ég hef lifað friðsömu lífi í þessarri borg í 43 ár, hvert átti ég að fara?“