Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Lána út æskuheimili Paul McCartney

06.04.2022 - 08:00
Mynd: YouTube / YouTube
Ungir og upprennandi tónlistarmenn geta nú sótt um athvarf á æskuheimili Bítilsins Paul McCartney til að semja tónlist sína. Með þessu vilja McCartney og bróðir hans gefa ungu fólki tækifæri á að láta ljós sitt skína.

Æskuheimili Pauls McCartney stendur við götuna Forthlin Road númer tuttugu. Það þarf líklega ekki að taka fram að það er í borginni Liverpool. 

Þar sleit McCartney barnskónum, og þar voru sömuleiðis mörg af fyrstu lögum Bítlanna samin þegar þeir McCartney og John Lennon leiddu saman hesta sína í herbergi þess fyrrnefnda. Um vinsældir laganna í kjölfarið þarf víst líklega ekki að hafa mörg orð.  

Húsið er í eigu húsafriðunarnefndar Bretlands, en þeir Paul og bróðir hans, Mike, gefa góðfúslegt leyfi fyrir því að húsið sé notað á þennan hátt. 

„Með því að bjóða ungu fólki í húsið gefum við því tækifæri að gera eitthvað gott. Þetta er tækifæri fyrir fólk sem kemur úr sárustu örbirgð eins og við. Fyrir mér er þetta hús vonarinnar,“ segir Mike McCartney, bróðir Bítilsins. 

Esme Bridie er ein þeirra fyrstu til að þiggja þetta góða boð þeirra bræðra og ber vistinni vel söguna, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.  

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV