Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Krafa um afsögn myndi jafngilda stjórnarslitum

Mynd: RÚV / Samsett mynd
Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði segir að það jafngilti stjórnarslitum ef ráðherrar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins krefðust afsagnar Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra og formanns Framsóknarflokksins vegna ummæla sem hann er sagður hafa látið falla á Búnaðarþingi.

Eiríkur segir að málið gæti haft áhrif á feril Sigurðar Inga. Málið sé þó ekki af þeim toga sem ráðherrar hér á landi hafi sagt af sér út af.

„Við vitum ekki hvaða ummæli þetta voru eða í hvaða samhengi þau féllu. En að því sögðu held ég að það sé alveg ljóst að margir kjósendur eru að sjá Sigurð Inga í svolítið öðru ljósi en áður. Og það kann að reynast svolítið erfitt fyrir hann að yfirvinna,“ segir Eiríkur.

Hann segir að Sigurður Ingi hafi haft yfir sér áru hófsams rólegheitamanns.

„Góðlyndur, traustur náungi í stjórnmálunum sem ekki lætur óviðurkvæmileg orð falla, en hann hefur sjálfur lýst þessu sem óviðurkvæmilegum orðum.“

Nú hafa aðrir ráðherrar fordæmt ummælin, en segja undir Sigurði Inga komið hvort hann íhugi sína stöðu. Ættu þeir að tjá sig með meira afgerandi hætti? „Það er ekki hefð fyrir því  að forsætisráðherra hafi beinlínis agavald annarra stjórnmálaflokka en síns eigins. Segjum sem svo að forystumenn í ríkisstjórninni færu fram á afsögn ráðherrans, formanns eins samstarfsflokksins í þessu tilviki,  þá jafngildir það í rauninni því að hætta stjórnarsamstarfinu, slíta ríkisstjórnarsamstarfinu. Og það er auðvitað meiriháttar aðgerð.“