
Árásir harðna í austurhéruðum Úkraínu
Rússar hafa látið sprengjum og flugskeytum rigna á borgina Severodonetsk það sem af er degi. Hún er síðasta borgin í austurhluta Úkraínu sem enn er á valdi úkraínska hersins. Bílalest Sameinuðu þjóðanna kom þangað í gær með matvæli og hjálpargögn sem eiga að duga fyrir sautján þúsund manns.
Að sögn fréttamanns AFP eru þúsundir íbúa Donbas-svæðisins á flótta eftir að árásir rússneska hersins voru hertar. Innan þess eru héruðin Donetsk og Luhkansk þar sem aðskilnaðarsinnar hafa lýst yfir sjálfstæði. Héraðsstjórinn í Donetsk áætlar að frá því á sunnudag hafi 146 þúsund héraðsbúar lagt á flótta.
Olía og gas næst?
Nýjustu refsiaðgerðir Evrópusambandsins gegn Rússum vegna fjöldamorða í úkraínska bænum Bucha gengu í gildi í dag. Meðal þeirra er bann við innflutningi á kolum frá Rússlandi. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, sagði, þegar hún gerði Evrópuþinginu grein fyrir aðgerðunum í dag, að verðmæti kolainnflutningsins hafi numið fjórum milljörðum evra á ári, þannig að bannið hefði umtalsverð áhrif á efnahag Rússa. Hún kvaðst gera ráð fyrir að gripið yrði til enn frekari aðgerða.
Charles Michel, forseti leiðtogaráðsins, tók í sama streng, þegar hann ávarpaði þingið. Hann kvaðst búast við að sjónum yrði beint að banni við innflutningi á olíu og gasi fyrr eða síðar.