Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Saka Rússa um þjóðarmorð - Rússar segja sakir upplognar

04.04.2022 - 20:36
Mynd: EPA-EFE / EPA
Stjórnvöld í Rússlandi segja upptökur og frásagnir frá úkraínsku borginni Bucha falsaðar. Stríðsglæpir og þjóðarmorð eru meðal lýsinga þjóðarleiðtoga á framgöngu rússneskra hermanna í borginni. Varsjá er yfirfull af flóttamönnum og aðrar þjóðir verða að koma til hjálpar segir sjálfboðaliði á járnbrautarstöð í borginni.

Stríðsglæpir og þjóðarmorð eru meðal lýsinga þjóðarleiðtoga á framgöngu rússneskra hermanna í úkraínsku borginni Bucha. Stjórnvöld í Rússlandi segja upptökur og frásagnir frá Bucha falsaðar. Forseti Úkraínu heimsótti borgina í dag. 

  • Í spilaranum hér að ofan má sjá umfjöllun um atburðina í Bucha, vibrögðin við þeim og svo umjföllun Arnars Björnssonar, fréttamanns, frá Varsjá. Við vörum við myndum í myndskeiðinu. 

Úkraínski herinn náði á laugardagskvöld öllu Kænugarðshéraðinu aftur á sitt vald. Í gær bárust svo fréttir og myndir af þeirri slóð eyðileggingar sem rússneskir hermenn skilja eftir sig eftir nær fimm vikna hersetu í borgum og svæðum í kringum höfuðborgina. Á fimmta hundrað hafa fundist látin og óttast er að enn muni fjölga í þeim hópi. 

Enn liggja lík eins og hráviði um borgina, úkraínskur hermaðurinn varar fréttafólk við að fara of nálægt hinum látnu. Enn sé ekki búið að ganga úr skugga um hvort sprengiefni sé þar í grennd. 

Annars staðar í borginni er verið að hreinsa göturnar og koma hinum látnu í burtu, til greftrunar og rannsóknar. Mörg líkana eru þannig útleikin að fátt virðist annað koma til greina en skipulögð aftaka. 

Stjórnvöld í Rússlandi þverneita að bera ábyrgð á voðaverkunum og segja upptökur og frásagnir frá Bucha falsaðar.

Varsjá er full af flóttamönnum

Aðrar þjóðir þurfa að koma til aðstoðar því Varsjá er full af flóttamönnum segir sjálfboðaliði á járnbrautarstöðinni í borginni. Hægst hefur á flóttamannastraumnum.

Jaime Lago er einn fjölmargra sjálfboðaliða sem tekur á móti flóttafólkinu. Hann vann hug og hjörtu þessarar ungu stúlku og fékk hana til að gleyma hörmungunum um stund að minnsta kosti. Amma stúlkunnar fylgdist með úr fjarlægð.

Doris Maklewska segir að hægst hafi á flóttamannastraumnum og á sama tíma hefur sjálfboðaliðum fækkað. Fólk geti ekki endalaust tekið sér frí frá vinnu. Allt byrjaði þetta skömmu eftir innrás Rússa, þá komu tvær stúlkur með samlokur handa flóttafólkinu. Núna telur þessi sjálfboðaliðahópur yfir þrjú hundruð manns.

Úkraínsk kona sem kom til Póllands á fyrsta degi innrásarinnar segist ekki skilja hvernig svona nokkuð geti gerst á tuttugustu og fyrstu öldinni. Viðtal við hana má sjá í spilaranum hér að ofan.