Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Notendur Truth Social æfir vegna tæknilegra örðugleika

04.04.2022 - 02:10
epa08939631 (FILE) US President Donald J. Trump walks out of the South Portico to greet Prime Minister of Israel Benjamin Netanyahu (not pictured) at the White House, in Washington, DC, USA, 27 January 2020. The presidency of Donald Trump, which records two presidential impeachments, will end at noon on 20 January 2021.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: Michael Reynolds - EPA
Tæplega ein og hálf milljón Bandaríkjamanna bíða enn eftir að fá aðgang að samfélagsmiðlinum Truth Social. Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, kynnti miðilinn til sögunnar í október á síðasta ári.

Þá sagði hann forritið hugsað sem mótvægi við alræði stærri tækni fyrirtækja og sagði það verða byltingu fyrir tjáningarfrelsi í netheimum. Forritinu var hleypt af stokknum í febrúar, en sex vikum síðar liggur það enn niðri fyrir yfir milljón notendur vegna tæknilegra örðugleika.

„Þú ert númer 1.419.631 í röðinni“

Notendum er nú raðað á biðlista, en margir eru orðnir óþolinmóðir og segjast hafa beðið eftir að komast inn á forritið vikum saman. Fréttamaður Breska ríkisútvarpsins greinir frá því að hafa sótt Truth Social, en hann hafi verið settur á biðlista með númerið 1.419.631.

Samfélagsmiðillinn er sagður mjög svipaður og Twitter, þar sem Trump er í eilífðar banni. Sérfræðingar hafa lýst furðu á því hve langan tíma hefur tekið að laga tæknilega örðugleika samfélagsmiðilsins, sem virðist tiltölulega hefðbundinn.

Einnig ber töluvert á gagnrýni notenda sem hefur tekist á ná í miðilinn, sem segja þar sé tómlegt, fámennt og Trump sjálfur hafi ekki sett inn færslu í rúman mánuð.

Ekki á topplista 100 vinsælustu forritanna

Þrátt fyrir það sem virðist langur biðlisti spenntra notenda, hafa vinsældir forritsins dregist verulega saman vegna tæknivandræðanna. Þann 21 febrúar, þegar samfélagsmiðillinn varð fáanlegur í snjallsíma frá Apple var það eitt vinsælasta forritið í því stýrikerfi. Nú er það hins vegar ekki meðal 100 vinsælustu smáforritanna.