Talið er að omíkron-afbrigðið smithæfa hafi náð að festa rætur í á öðrum tug héraða Kína en stórborgin Shanghai er þungamiðja útbreiðslunnar.
Næstum öllum 25 milljónum íbúa borgarinnar var í gær gert að halda sig heima en embættismenn hamast við að finna leiðir til að draga úr útbreiðslunni.
Yfir 70 af hundraði allra tilfella síðasta sólarhrings má rekja til Shanghai. Í yfirlýsingu heilbrigðisyfirvalda kemur fram að langflestir smitaðir eru einkennalausir.
Ekki var tilkynnt um dauðsföll af völdum sjúkdómsins í dag. Allar þær hömlur sem gilda í Shanghai verða til þess að stöðva vörudreifingu og reiði vex daglega meðal borgarbúa.
Nýtt afbrigði omikron greint í Kína
Heilbrigðisyfirvöld í kínversku borginni Suzhou vestan við Shanghai segjast hafa uppgötvað stökkbreytingu í omikron-afbrigði kórónuveirunnar. Afbrigðið er hvorki að finna í innlendum né alþjóðlegum gagnagrunnum að sögn ríkisfréttastofunnar Xinhua.
Kínverjar hafa rekið svokallaða núllstefnu gagnvart COVID-19 og gera enn. Þannig hefur þeim hingað til tekist að halda faraldrinum í skefjum, oftar en ekki með ströngu útgöngubanni. Það hefur þó ekki dugað í glímunni við omíkron-afbrigðið.
Upphaflega stóð til að útgöngubannið í Shanghai gilti aðeins í fjóra daga meðan fjöldasýnataka færi fram en nú er útlit fyrir að það eigi eftir að dragast á langinn, jafnvel til loka næstu viku.
Fréttin var uppfærð klukkan 6:54 með upplýsingum um nýtt afbrigði omikron.