Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kínverjar glíma enn við aukna útbreiðslu COVID-19

03.04.2022 - 04:20
epa09861674 A man walks in front of the compound under quarantine amid the lockdown, in Puxi side of the city, in Shanghai, China, 31 March 2022. Shanghai city imposed a strict lockdown amid the COVID-19 resurgence. A complete lockdown hits the two biggest areas in the city, divided by the Huangpu River. East of the Huangpu River, Pudong area, lockdown started on 28 March while west area, Puxi, will have a lockdown from 01 April.  EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Kína greina frá því að á fjórtánda þúsund nýrra kórónuveirutilfella hafi greinst í landinu undanfarinn sólarhring. Aldrei hafa greinst fleiri smit í landinu frá því faraldurinn hófst fyrir rúmum tveimur árum.

Talið er að omíkron-afbrigðið smithæfa hafi náð að festa rætur í á öðrum tug héraða Kína en stórborgin Shanghai er þungamiðja útbreiðslunnar.

Næstum öllum 25 milljónum íbúa borgarinnar var í gær gert að halda sig heima en embættismenn hamast við að finna leiðir til að draga úr útbreiðslunni.

Yfir 70 af hundraði allra tilfella síðasta sólarhrings má rekja til Shanghai. Í yfirlýsingu heilbrigðisyfirvalda kemur fram að langflestir smitaðir eru einkennalausir.

Ekki var tilkynnt um dauðsföll af völdum sjúkdómsins í dag. Allar þær hömlur sem gilda í Shanghai verða til þess að stöðva vörudreifingu og reiði vex daglega meðal borgarbúa. 

Nýtt afbrigði omikron greint í Kína

Heilbrigðisyfirvöld í kínversku borginni Suzhou vestan við Shanghai segjast hafa uppgötvað stökkbreytingu í omikron-afbrigði kórónuveirunnar. Afbrigðið er hvorki að finna í innlendum né alþjóðlegum gagnagrunnum að sögn ríkisfréttastofunnar Xinhua. 

Kínverjar hafa rekið svokallaða núllstefnu gagnvart COVID-19 og gera enn. Þannig hefur þeim hingað til tekist að halda faraldrinum í skefjum, oftar en ekki með ströngu útgöngubanni. Það hefur þó ekki dugað í glímunni við omíkron-afbrigðið. 

Upphaflega stóð til að útgöngubannið í Shanghai gilti aðeins í fjóra daga meðan fjöldasýnataka færi fram en nú er útlit fyrir að það eigi eftir að dragast á langinn, jafnvel til loka næstu viku. 

Fréttin var uppfærð klukkan 6:54 með upplýsingum um nýtt afbrigði omikron.