Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Flóð og skriðuföll hafa orðið 14 að bana í Brasilíu

03.04.2022 - 00:40
epa09860330 People in Princesa Isabel Square, in the area known as Cracolandia, a rundown neighborhood home to several drug addicts and drug traffickers in downtown Sao Paulo, Brazil, 28 March 2022 (Issued 30 March 2022). Cracolandia, Brazil's largest open-air drug market, was demolished after 30 years forcing its residents to move to other parts of town.  EPA-EFE/FERNANDO BIZERRA JR
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Fjórtán hafa farist og fimm er saknað eftir að úrhellisrigning olli miklum flóðum og aurskriðum í Rio de Janeiro ríki Brasilíu. Átta börn eru meðal þeirra látnu.

Gríðarlegt rigningarveður hefur undanfarna tvo daga gengið yfir stóran hluta ríkisins sem er suðaustanvert í Brasilíu. Enn meiri rigningu er spáð næstu daga.

Götur stórborga urðu sem beljandi fljót á föstudaginn. Vatnsflaumurinn hreif með sér farartæki og kom af stað skriðuföllum. Kona og sex barna hennar eru meðal þeirra sem fórust þegar skriða hreif með sér hús þeirra í Ponta Negra.

Sjöunda barnið lifði af en fjórir slösuðust. Sex fórust í borginni Angra dos Reis en borgaryfirvöld hafa lýst yfir neyðarástandi. Fernando Jordao borgarstjóri segir björgunarsveitir og almenning ætla að halda leit áfram í nótt að þeim fimm sem enn er saknað.

Jair Bolsonaro forseti Brasilíu segir alríkisstjórnina hafa sent flugherinn til aðstoðar bágstöddum en Alexandre Lucas ráðherra almannavarna er kominn til Rio. Sex vikur eru síðan flóð og skriðuföll urðu 233 að bana í Petropolis, sögufrægri borg í Rio-ríki.