Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Færð til vegna ofsahræðslu flóttabarna við flugvélagný

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Tugir Úkraínumanna voru fluttir í skyndi á hótel Sögu af Ásbrú eftir að ofsahræðsla greip börn í hópi flóttamanna vegna flugvélagnýs frá flugvellinum.

Gylfi Þór Þorsteinsson aðgerðarstjóri vegna komu flóttamanna frá Úkraínu segir að bregðast hafi orðið skjótt við vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna. 

„Það sem gerist er það að við vorum komnir með mjöt gott húsnæði á Ásbrú fyrir þessa flóttamenn. Það sem gerist síðan er að vegna nálægðar við flugvöllinn þá urðu börn mjög hrædd þannig að það þurfti að flytja þau í skyndi þaðan út af þeim látum sem þar voru nú eru að hefjast heræfingar og annað þannig að við gripum til þess ráðs að flytja fólkið í skyndi á hótel Sögu og því miður var hótel Saga ekki alveg eins tilbúin og við vildum að hún væri þegar fólkið kom en hérna það var nú gerð gangskör að því í gær og verður klárað í dag að hafa allt tilbúið svo fólkinu líði nú betur þar." 

Dvöl á hótel Sögu er aðeins hugsuð til skamms tíma fyrir flóttafólkið ekki lengur en í hálfan mánuð. Ásbrú verður þó áfram nýtt sem tímabundinn dvalarstaður og er hópur fólks enn þar. Flóttafólk frá fleiri löndum en Úkraínu dvelur einnig tímabundið á hótel Sögu.

„Við erum á fullu núna að útvega fólki húsnæði bæði til skemmri og lengri tíma og þegar hlaupið er hratt þá stundum hrasar fólk og þarna hrösuðum við aðeins en við erum að standa á fætur og taka til og laga umhverfið og gera þetta betra en svona gerist því miður þegar hlaupið er hratt þá verða einhverjir annmarkar á því sem er verið að gera en það verður bara lagað." 

Fésbókarhópur hefur verið stofnaður í vesturbænum eins og víðar og hafa íbúar komið með mat og fatnað fyrir flóttafólkið. Gylfi Þór segir það vel. Hann minnir á að flóttafólk þurfi sannarlega mikla aðstoð en einnig ákveðna vernd. Hver sem er eigi ekki að ganga inn á dvalarstaði flóttafólksins.

„þannig að eins falleg hugsun og þetta er og eins góð og hún er og við þiggjum þessa aðstoð með þökkum þá viljum við líka benda fólki á að vera ekki endilega að koma inn á þessi úrræði nema að því sé boðið."
 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV