Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Heimsins mikilvægasta kvöld

Heimsins mikilvægasta kvöld

02.04.2022 - 19:15

Höfundar

Í þættinum Heimsins mikilvægasta kvöld sem sýndur er á RÚV í kvöld nær Heimsforeldraátak UNICEF á Íslandi, Heimsins bestu foreldrar, hámarki. Um er að ræða glæsilegan söfnunar- og skemmtiþátt sem er fræðandi en einnig ætlað að vekja gleði og von.

Hátt í hundrað leikarar, dansarar, grínarar og tónlistarfólk tekur þátt í að skapa ógleymanlega kvöldstund fyrir fjölskylduna í þættinum Heimsins mikilvægasta kvöld.

Í þættinum er fjallað um stríðið í Úkraínu og neyðaraðgerðir UNICEF á svæðinu. Eins verður sýnt frá margvíslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveirunnar á líf barna, meðal annars í Malaví, Síerra Leóne, Indónesíu, Bangladess, Sýrlandi og Jemen. Markmið þáttarins er að fjölga enn í hópi Heimsforeldra á Íslandi sem styðja starf UNICEF með mánaðarlegum framlögum.  Meðan á útsendingu stendur er hægt að taka þátt í söfnuninni með því að hringja í 562 6262.

Auk innslaga frá UNICEF á vettvangi er þátturinn fullur af skemmtiatriðum frá þjóðþekktu listafólki. Kanaríhópurinn sýnir grínatriði þar sem Annie Mist, Jón Gnarr, Steindi Jr. og Bassi Maraj bregða á leik. Páll Óskar, Diddú, Lay Low og Daníel Ágúst eru svo á meðal þeirra sem flytja fagra tóna.

Kynnar kvöldsins eru Einar Örn Jónsson og Sigurlaug Margrét Jónasdóttir en þeim til halds og trausts verða þau Björg Magnúsdóttir og Guðmundur Pálsson.   

Í átakinu Heimsins bestu foreldrar sem hófst í síðustu viku munu framlög nýrra Heimsforeldra næstu þrjá mánuði renna beint til neyðarstarfs UNICEF vegna Úkraínu. Heimsforeldrar hjálpa UNICEF að:

  • Vera til staðar fyrir börn og fjölskyldur á flótta frá Úkraínu og flytja hjálpargögn, sjúkragögn, lyf og nauðsynjar á vettvang átakanna. 
  • Tryggja réttindi og velferð barna sem orðið hafa verst úti vegna heimsfaraldurs COVID-19 um allan heim. 
  • Tryggja vannærðum börnum í Jemen og um allan heim lífsbjörg. 
  • Aðstoða barnungar stúlkur að losa sig úr viðjum barnahjónabanda. 
  • Vernda börn um allan heim fyrir ánauð barnaþrælkunar, hermennsku og hvers kyns ofbeldi. 
  • Tryggja börnum um allan heim aðgengi að hreinu vatni, nauðsynlegum bólusetningum, lyfjum, heilbrigðisþjónustu og næringu. 

Heimsins mikilvægasta kvöld hefst klukkan 19:45.