Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Enn óvissa um ábyrgð við erfiðar starfsaðstæður

02.04.2022 - 13:23
Mynd: Rúv / Kveikur
Læknar segja þörf á úrbótum á úrvinnslu alvarlegra atvika sem koma upp í heilbrigðiskerfinu. Læra þurfi af reynslusögum kvenna sem stigið hafa fram í vikunni og lýst alvarlegum afleiðingum mistaka innan kerfisins. Formaður Læknafélags Íslands segir ótækt að heilbrigðisstarfsfólk sé persónulega ábyrgt ef eitthvað fer úrskeiðis í þeirra störfum, við þær erfiðu starfsaðstæður sem nú séu í heilbrigðiskerfinu.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, fagnar því að heilbrigðisráðherra hafi endurvakið starfshóp um öryggi sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks. Hún segir aðgerða þörf strax og skýra þurfi ábyrgð stofnana í heilbrigðiskerfinu og þeirra sem þar starfa. „Þetta þarf líka að vera skýrara, þú getur ekki sett starfsfólkið þitt í hvaða aðstæður sem er og gert það svo persónulega ábyrgt ef eitthvað fer úrskeiðis sem klárlega er stórkostleg hætta á ef það er undirmönnum og allt of mikið álag og fólk missir yfirsýnina. Ætlarðu þá að láta einstaklinginn sem lendir með svartapétur í höndunum, á hann að bera alla ábyrgð, þannig að það þarf að skýra þetta og sem dæmi þá kölluðu læknar á bráðamóttöku eftir þessu síðasta sumar, sögðu við erum undir neyðarmönnun í allt sumar, við höfum ekki yfirsýn, þetta er náttúrulega bara eins og við séum alltaf í einhverju neyðarástandi alla daga, er ég persónulega ábyrg eða ábyrgur ef eitthvað fer úrskeiðis í minni læknismeðferð við þessar aðstæður, og þessu hefur í rauninni ekki ennþá verið svarað,“ sagði Steinunn í Vikulokunum í morgun. 

Þar ræddi Sigríður Dögg Auðunsdóttir við Steinunni, Helgu Baldvins Bjargardóttur, lögmann og sérfræðing í réttargæslu sjúklinga og fatlaðs fólks, og Halldóru Mogensen, þingmann Pírata. Steinunn segir að umræða um öryggi sjúklinga hafi undanfarið verið til umræðu innan læknastéttarinnar og sagði hug allra hjá Bergþóru Birnudóttur sem steig fram í Kveik á þriðjudaginn. Hún örkumlaðist við fæðingu eins stærsta barns sem fæðst hefur hér á landi og undirbýr nú stefnu á hendur ríkinu vegna meintra læknamistaka.

Halldóra segir erfitt fyrir þá sem verða fyrir alvarlegu tjóni vegna mistaka innan heilbrigðiskerfisins að leita réttar síns. „Opinberar stofnanir eru oft að taka ákvarðanir sem varða réttindi fólks, það er verið að neita fólki um réttindi og það á að vera hægt að sæta endurskoðun æðra stjórnvalds, kærunefndar eða annað, ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að fólk geti leitað annað eftir réttindunum sínum og líka eftir upplýsingum og handleiðslu og annað, ég held að þetta gæti verið sterkt og ég veit ekki af hverju þetta hefur ekki verið gert, en ætti klárlega að skoða og sérstaklega í ljósi umræðunnar núna,“ segir Halldóra.