Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Úrgangsvísitalan

01.04.2022 - 16:08
Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Stefán Gíslason flutti umhverfispistilinn í Samfélaginu á Rás 1 og ræddi þar um hvort hægt væri að virkja keppnisskap Íslendinga til aukinnar umhverfisvitundar.

 

Stefán Gíslason les:

Ég held að við Íslendingar séum upp til hópa keppnisfólk og að flest okkar hafi lúmskt gaman af að bera frammistöðu okkar á einhverju sviði saman við frammistöðu annarra, hvort sem það er frammistaða okkar sem einstaklinga, byggðarlags eða þjóðar. Helst viljum við vera best í heimi – og ef okkur tekst það ekki, þá reynum við gjarnan að sannfæra sjálf okkur um að í raun og veru eigum við heima ofar á listanum en tölurnar sýna. Í þeim rökræðum kemur höfðatalan oft í góðar þarfir.

Það er hægt að keppa við aðrar þjóðir í fleiru en skák, handbolta, hagvexti og orkuframleiðslu. Það er til dæmis hægt að keppa um það hver standi sig best í úrgangsmálum, þ.e.a.s. hver búi til minnst af úrgangi, endurvinni mest, skilji minnst af rusli eftir á víðavangi og þar fram eftir götunum.

Úrgangsvísitalan

Fyrr í þessum mánuði birti slóvakíska hugbúnaðarfyrirtækið Sensoneo niðurstöður úr athugun sinni á frammistöðu OECD-ríkja í úrgangsmálum, þ.e.a.s. það sem þau kalla úrgangsvísitöluna (eða Global Waste Index) 2022. Athugunin náði til allra þeirra 38 ríkja sem eiga aðild að OECD, en það eru væntanlega þau ríki sem Íslendingar vilja helst bera sig saman við hvað frammistöðu í umhverfismálum varðar. Ísland kemur ekki beinlínis vel út á þessum lista Sensoneo. Nánar tiltekið er þar fátt sem bendir til að Íslandi sé best í heimi – og það sem verra er: Ísland hefur sigið talsvert á listanum frá því að hann var gefinn út síðast árið 2019.

Reikniaðferðir

Áður er lengra er haldið er rétt að líta á hvernig þessi úrgangsvísitala er reiknuð. Hún byggir sem sagt á tölum Eurostat (sem er Hagstofa Evrópusambandsins), gangasafni OECD um úrgang og tölum frá Alþjóðabankanum. Í öllum tilvikum voru notaðar nýjustu tölur sem til voru, en þær tölur eru eins og vænta má misnýjar eftir löndum. Það ætti þó ekki að skekkja heildarmyndina verulega. Þættirnir sem reiknaðir voru inn í vísitöluna voru í fyrsta lagi magn úrgangs í kílóum talið, sem féll til á hvern íbúa viðkomandi lands á einu ári. Í öðru lagi var endurvinnsluhlutfall viðkomandi lands tekið inn í reikninginn, þ.e.a.s. það hlutfall úrgangs sem til féll sem varð á nýjan leik að hráefni. Hér er með öðrum ekki verið að tala um þann úrgang sem er sendur til endurvinnslu, heldur þann úrgang sem er í raun og veru endurunninn. Að vísu var endurvinnsla með jarðgerð ekki tekin með í reikninginn, þar sem þar voru ekki til gögn fyrir öll löndin. Í þriðja lagi var skoðað hversu mikill úrgangur var brenndur á ábyrgan hátt, í fjórða lagi hversu mikill úrgangur fór í urðun, í fimmta lagi hversu mikið af úrgangi var komið í lóg með ólögmætum hætti og í sjötta lagi var rýnt í áætlað magn óskráðs úrgangs, þ.e.a.s. úrgangs sem fellur til en er hvergi skráður.

Þegar búið var að safna saman öllum þessum tölum voru þjóðum gefin plús- og mínusstig fyrir hvert þessara sex atriða, út frá þýðingu þeirra hvers um sig fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Í þeim efnum gaf hátt endurvinnsluhlutfall flest plússtig en hátt hlutfall ólöglegrar losunar flest mínusstig. Þessi stigagjöf leiddi svo af sér ákveðna röð þjóða, sem síðan var umreiknuð í vísitölu á bilinu 0-100.

Suður-Kórea best í heimi

Til að gera langa sögu stutta, þá er Suður-Kórea best í heimi í úrgangsmálum samkvæmt vísitölu Sensoneo, þ.e.a.s. best í heimi OECD-ríkja. Suður-Kórea fékk sem sagt 100 stig. Þar falla til 400 kg af úrgangi á mann á ári, aðeins 46 kg eru urðuð og endurvinnsluhlutfallið er 60,8%, svo eitthvað sé nefnt. Suður-Kórea var líka best í heimi árið 2019 þegar vísitalan var birt síðast. Tyrkland situr hins vegar á botninum með 0 stig, alveg eins og síðast. Þar falla reyndar bara til 424 kg af úrgangi á mann ári, en þar af fara 347 kg í urðun, endurvinnsluhlutfallið er ekki nema 11% og mikið er um ólöglega losun úrgangs á opna hauga og þess háttar.

Ísland ekki best í heimi

Það kemur líklega fáum á óvart að Norðurlandaþjóðirnar eru næstum allar á tíu þjóða toppi úrgangsvísitölunnar. Nánar tiltekið er Danmörk í 2. sæti, sem er veruleg framför frá 2019 þegar Danir voru í 11. sæti á listanum. Finnland er í 5. sæti en var áður númer 7, Noregur er í 6. sæti en var áður nr. 9 og Svíþjóð er í 9. sæti og hefur fallið úr 2. sætinu sem Svíarnir vermdu síðast. Þá er bara ein Norðurlandaþjóð ótalin, þ.e.a.s. Ísland. Árið 2019 var Ísland í 14. sæti af 36 þjóðum, en hefur nú hrapað niður í 30. sæti af 38 þjóðum. Kólumbía og Kosta Ríka fengu aðild að OECD í millitíðinni og því hefur ríkjunum fjölgað um tvö.

Það eru í raun og veru þrjú atriði sem verða Íslandi einkum að falli í úrgangsvísitölunni. Í fyrsta lagi er úrgangsmagnið meira en í flestum öðrum löndum. Þar er Ísland sem sagt í 8. sæti með 702 kg á mann. Í öðru er lagi er urðun mikið stunduð hérlendis. Þar er Ísland í 4. sæti með 418 kg á mann. Og í þriðja lagi er endurvinnsluhlutfall með því lægsta sem gerist, eða 16,7%. Þegar á heildina er litið er úrgangsvísitalan fyrir Ísland 54 stig, sem er greinilega engin úrvals-vísitala í þessum OECD-samanburði.

Betri tíð framundan?

Auðvitað eru svona útreikningar ýmsum takmörkunum háðir, svona rétt eins og öll önnur einkunnagjöf. Einhver munur kann að vera á því hvernig bókhaldið er fært í mismunandi löndum, tölurnar geta verið misnýjar eins og áður segir – og svo mætti lengi telja. Fái maður lélega útkomu úr prófi er þó oftast farsælla, til lengri tíma litið, að reyna að bæta frammistöðuna en að nota orkuna í að fárast yfir asnalegum aðferðum við útreikning einkunna, sérstaklega þegar höfðatalan nýtist manni ekki lengur sem afsökun. Reyndar hafa Íslendingar ástæðu til að vera bjartsýnir á að þeim auðnist að skríða upp listann áður en hann verður gefinn út næst. Urðun er til að mynda á útleið og ýmsar aðrar breytingar eru í farvatninu í tengslum við innleiðingu Evróputilskipana um úrgangsmál. Evróputilskipanir taka reyndar ekki mjög hart á úrgangsmynduninni sem slíkri. Það hversu miklu við hendum ræðst ekki síst af því hversu mikið við kaupum – og þá aðallega af því hversu mikið við kaupum af óþarfa, eða með öðrum orðum af því hversu mikið við kaupum af efni eða hlutum sem við notum lítið sem ekkert og þurfum að losa okkur við fyrr en síðar.

Góður fréttirnar: Tækifæri til úrbóta!

Kosturinn við að fá lágar einkunnir er sá, að í lágum einkunnum felast tækifæri til úrbóta. Hvað sem reikniaðferðum líður er ljóst að Ísland er alls ekki best í heimi í úrgangsmálum. En hvernig er það: Erum við ekki með gott lið og getum ótrauð stefnt á pallinn?

(Nánar á https://sensoneo.com/global-waste-index/)

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður