Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mesta verðbólga í næstum tólf ár

29.03.2022 - 09:08
Mynd með færslu
 Mynd: andreas160578 - Pixabay
Ársverðbólgan er komin í 6,7 prósent og hefur ekki verið hærri síðan í maí árið 2010. Hækkandi húsnæðis-, eldsneytis- og fataverð hafði mest áhrif á aukna verðbólgu í síðasta mánuði. Verð á bensíni og olíum hækkaði um rúm átta prósent og húsnæðisverð um tvö prósent. Föt og skór hækkuðu um rúm fimm prósent í verði.

Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar sem voru birtar klukkan níu í morgun. 

Verðbólga hefur farið hratt vaxandi síðustu mánuði. Hún mældist 4,3 prósent í ágúst og hefur aukist í hverjum mánuði síðan þá. Mest hefur aukningin verið það sem af er þessum ári, um eða yfir hálfu prósenti milli mánaða allt frá því í desember.

Verðbólga hefur nú verið yfir vikmörkum Seðlabankans allt þetta og síðasta ár og yfir 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði í tæp tvö ár.