Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Gríðarleg verðmæti glötuðust í covid

29.03.2022 - 10:16
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Ríkissjóður verður rekinn með rúmlega þrjátíu milljarða króna halla árið 2027, samaborið við ríflega 180 milljarða halla í ár, samkvæmt nýrri fjármálaáætlun stjórnvalda sem kynnt var í morgun.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í kynningu sinni á fjármálaáætlun að efnahagshorfur séu að batna og tekjuhlið ríkisfjármálanna að taka við sér. Spá Hagstofunnar um árlega landsframleiðslu séu allt að 90 milljörðum hærri en í upphafi heimsfaraldurs.  

Bjarni sagði þessa þætti hafa mest áhrif á getu ríkisins til að stöðva skuldasöfnun sem sé engu að síður mikil eftir faraldurinn. Ríkissjóður verður rekinn með 183 milljarða halla í ár samkvæmt fjárlögum, en í nýrri fjármálaáætlun er stefnt á að ná 34 milljarða króna halla árið 2027.  Mikil verðmæti hafi horfið varanlega með heimsfaraldrinum, en nú sé ekki sama þörf fyrir stuðning ríkisins eins og var í miðjum faraldri. 

„Við þurfum að draga smám saman úr þessum stuðningi ríkisfjármálanna við hagkerfið. Einhver gæti spurt, hvernig geturðu haldið því fram að þú sért að reka aðhaldssama ríkisfjármálastefnu þegar hallinn losar 100 milljarða? Jú aðhaldið birtist í því að við smám saman sjáum hallann dragast saman. Og stöðvum á endanum skuldasöfnunina.”  Segir Bjarni.

Hann segir kaupmátt launa hafa haldið áfram að vaxa og gert sé ráð fyrir að sú þróin haldi áfram. Þrátt fyrir aukna verðbólgu sem nú er samkvæmt vef seðlabankans 6,7%.  

hafdishh's picture
Hafdís Helga Helgadóttir