Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Mögulega aftur stórtónleikar í kortunum eftir covid

27.03.2022 - 20:00
Mynd: RÚV / RÚV
Eftir þurrkatíð undanfarin tvö ár sjá tónleikahaldarar fram á bjartari tíma. Viðræður við heimsþekkta flytjendur eru farnar á fullt og risatónleikar í kortunum.

Frá því að samkomutakmarkanir voru fyrst settar fyrir rétt rúmum tveimur árum hafa þær ýmist verið hertar eða afnumdar til skiptis, sem hefur gert skipulagningu hinna ýmsu viðburða mjög erfiða.

„Við erum búin að vera að halda fullt af viðburðum og svo núna í maí allir þeir tónleikar sem við vorum búin að fresta síðastliðin tvö ár,“ segir Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu.

Fjölmennustu tónleikar sem haldnir hafa verið hér á landi voru tónleikar Ed Sheerans haustið 2019, rétt áður en faraldurinn skall á, þegar um fimmtíu þúsund manns mættu í Laugardalinn. 

Síðan þá hefur engin tónlist ómað í Laugardalnum, nærstöddum íbúum mögulega til mikillar gleði. En það er væntanlega við það að breytast. „Það eru ekki margir listamenn í heiminum sem gætu fyllt Laugardalsvöllinn. En nú vita allir að þetta er hægt,“ segir Ísleifur, sem segir ýmsar viðræður í gangi.

Ýmsir árvissir innlendir viðburðir hafa legið í dvala undanfarin tvö ár. Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður er á dagskrá um páskana, og skipuleggjendur eru undir allt búnir. „Við erum alveg að búast við því versta og vona það besta, ég held að fólk kunni það núna eftir þessi ár,“ segir Kristján Freyr Halldórsson, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar. Í fyrra var hátíðinni frestað á síðustu stundu. „Bara, korter í gigg, þá skall á með tíu manna samkomutakmörkunum.“

Í Vestmannaeyjum halda menn niðri í sér andanum og vona það besta, eftir að Þjóðhátíð í Eyjum var slaufað í fyrra og hittiðfyrra. „Við vonum að við séum komin yfir þetta,“ segir Hörður Orri Grettisson, formaður þjóðhátíðarnefndar ÍBV. „Við höfum hafið undirbúning af fullum þunga, stefnum að því að fara að selja á hátíðina mjög fljótlega og reiknum ekki með því að það eigi eitthvað eftir að koma upp á í sumar. Eða við vonum í það minnsta kosti ekki.“

„Ég held að það sé bara mikil gleði í fólki,“ segir Kristján Hreinn. „Ég fór á tónleika sjálfur og fór í leikhús um helgina, og maður finnur bara, maður kann að meta allt. Ég var bara að horfa á búningana og ljósin og bara Vá hvað þetta er allt fallegt!“