Meðal annars er ætlun Blinkens að afla stuðnings Ísraels, Marokkó, Egyptalands, Bahrein og Sameinuðu arabísku furstadæmanna við málefni Úkraínu.
Auk þess hyggst hann draga úr áhyggjum Ísraelsmanna vegna kjarnorkusamnings við Írani og ræða viðbrögð við kornskorti vegna innrásarinnar í Úkraínu.
Ríki miðausturlanda og Norður-Afríku reiða sig mjög á innfluttar kornvörur og því talin veruleg hætta á að verð hækki mikið á nauðsynjavörum.
Donald Trump þáverandi Bandaríkjaforseti gerði sættir Ísraela og Arabaríkja að meginmarkmiði utanríkisstefnu sinnar undir lok valdatíðar sinnar. Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein, Súdan og Marokkó tilkynntu öll um þessa stefnubreytingu í garð Ísraels árið 2020.
Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísraels, lýsti í febrúar þungum áhyggjum af endurnýjun kjarnorkusamnings við Íran. Hann kvaðst efins um að samningurinn kæmi í veg fyrir að Íranir þróuðu og smíðuðu kjarnavopn.
Í dag lýsti hann sorg sinni yfir árás uppreisnarmanna Húta í Jemen á olíubirgðastöð í Sádí Arabíu. Þeir eru dyggilega studdir af Írönum og Bennett sagði árásina til marks um að Íranir svifust einskis.
Blinken ætlar einnig að hitta Mahmud Abbas forseta Palestínu sem óttast að landar hans séu Bandaríkjamönnum gleymdir.
Dregið var mjög úr fjárhagstuðningi við Palestínu á tímum Trump-stjórnarinnar auk þess sem sendiskrifstofu Bandaríkjanna í Jerúsalem var lokað.
Hún hefur ekki enn verið opnuð þrátt fyrir loforð nýrrar ríkisstjórnar um annað. Líklegt þykir að Blinken og Abbas ræði það mál á fundi sínum á Vesturbakkanum.