
Varnarmálaráðherra fékk hjartaáfall eftir ávítur Pútíns
Sergei Shoigu hafði ekki sést opinberlega frá því 11. mars og þar til honum sást bregða örstutt fyrir í myndskeiði frá Vladimír Pútín Rússlandsforseta 24. mars.
Ráðgjafi innanríkisráðherrans, Anton Gerashchenko skrifaði á Facebook í dag að varnarmálaráðherrann hefði fengið fyrir hjartað eftir þungar ásakanir Pútíns í hans garð um að innrásin í Úkraínu hefði algerlega misheppnast.
Gerashchenko segir að Shoigu sé nú á sjúkrahúsi til endurhæfingar. Rússnesk stjórnvöld hafa ekki staðfest þessi orð ráðgjafa innanríkisráðherra Úkraínu.
Falsfréttir bannaðar með lögum
Pútín Rússlandsforseti hefur formlega staðfest lög sem heimila allt að fimmtán ára fangelsisdóm yfir fólki sem dreifir fölskum fréttum um störf embættismanna ríkisins.
Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu og segir lögin bera sterkan keim af samskonar lagasetningu sem bannar dreifingu rangra upplýsinga um Rússlandsher.
Pútín staðfesti þau lög skömmu eftir að innrásin hófst 24. febrúar. Rússneska fréttastofan Interfax flutti fréttir af nýju lögunum í dag og hefur eftir þingmanni að þau séu nauðsynleg til að koma í veg fyrir dreifingu falsfrétta um rússnesk sendiráð og aðrar stofnanir ríkisins.