Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Búa sig undir móttöku 100 þúsund flóttamanna

Mynd: EPA / EPA
Danir búa sig undir að taka við 100 þúsund flóttamönnum frá Úkraínu. Innflytjendaráðherra Danmerkur segir að öll sveitarfélög landsins verði að taka þátt í móttöku flóttamanna. Talið er að fjórðungur Úkraínumanna, yfir 10 milljónir, hafi hrakist að heiman vegna innrásar Rússa, sem hófst fyrir rúmum mánuði.

Flestir eru enn innan landamæra Úkraínu en um þrjár milljónir hafa sótt til grannlanda, langflestir eru í Póllandi á þriðju milljón. Grannríki búa sig undir að stór hluti þessa fólks sæki um alþjóðlega vernd, þar á meðal bæði Danir og Svíar.

Fleiri flóttamenn en nokkru sinni fyrr

Matthias Tesfaye, ráðherra innflytjendamála í dönsku stjórninni, sagði í gær að fleiri kæmu en nokkru sinni fyrr í sögunni. Hann segir að 12 þúsund fullorðnir Úkraínumenn hafi sótt um vernd, einnig 12 þúsund börn og að auki tvö þúsund aðrir, samtals 26 þúsund manns á einum mánuði. Innflytjendaráðherrann gerir ráð fyrir að fjöldi flóttamanna fari yfir hundrað þúsund.

Erfitt fyrir mörg sveitarfélög

Tesfaye segir að þetta geti orðið erfitt fyrir mörg sveitarfélög, en allir verði að leggjast á eitt. Ulrik Wibek, fyrrverandi landsliðsþjálfari Dana í handbolta, er bæjarstjóri í Viborg, 40 þúsund manna bæ á mið Jótlandi. Hann býst við eitt þúsund flóttamönnum og segir sveitarfélagið ráða við þann fjölda.

Mikill fjöldi til Svíþjóðar

Svíar gera einnig ráð fyrir miklum fjölda flóttamanna til viðbótar þeim sem þegar eru komnir. Yfirvöld telja að þeir geti orðið fleiri en 200 þúsund. Sumir þeirra hafa þegar fengið vinnu. Svíar leggja áherslu á að hraða skráningu flóttamanna. Mikael Ribbenvik, hjá Innflytjendastofnun Svíþjóðar, segir þegar skráningu sé lokið líði skammur tími uns fólk fái dvalar- og atvinnuleyfi.

Hafa áhyggjur af kennaraskorti

Svíar hafa áhyggjur af því að erfitt geti orðið að finna kennara fyrir öll úkraínsku börnin, það er mikil eftirspurn eftir fólki eins og Olenu Yakovlievu, sem var barnakennari í Úkraínu og vonast til að geta kennt úkraínskum börnum í Svíþjóð.