
Líkurnar á valdaráni í Kreml sagðar aukast sífellt
Sá ónefndi uppljóstrari segir mikla upplausn og óánægju hafa grafið um sig innan þjónustunnar í ljósi þess hve illa gangi að ná þeim markmiðum sem Pútín setti sér í upphafi atlögunnar.
Nafnlaus bréf hafa verið birt á netinu skrifuð af greinanda innan leyniþjónustunnar til útlæga andófsmannsins Vladimirs Osechkins stofnanda mannréttindahópsins Gulagu.net.
Osechkin segir í samtali við The Times að áhættusamt sé að skrifa slík bréf en tilskrifin séu augljóst merki um vaxandi reiði í garð Pútíns og óánægju með þau áhrif sem viðskiptaþvinganir vesturlanda hafa á starfsmenn leyniþjónustunnar.
Nú sé útilokað fyrir þá að dvelja í húsunum sínum á Ítalíu eða skreppa með börnin sín í Disneyland.
Osechkin segir að Pútín hafi tekist að koma á stöðugleika í Rússlandi undanfarna tvo áratugi sem hafi tryggt starfsfólki innan ríkiskerfisins, leyniþjónustufólki, lögreglumönnum og saksóknurum gott og öruggt líf.
„Það hefur allt verið hrifsað af þeim og þau vita vel að stríðsreksturinn hefur hörmuleg áhrif á efnahaginn og stöðu mannréttinda. Þau hafa ekki nokkurn minnsta áhuga á að hverfa aftur til tíma Sovétríkjanna,“ segir Osechkin.
„Með hverri vikunni eða mánuðinum sem líður aukast líkurnar á uppreisn gegn forsetanum sífellt.“