Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Forsetahjónunum vel tekið á Þórshöfn

Mynd með færslu
 Mynd: Gréta Bergrún Jóhannesdóttir
Forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, eru nú í tveggja daga heimsókn í Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppi. Þau komu til Þórshafnar í morgun og fengu höfðinglegar móttökur hjá heimamönnum þar.

Þetta er fyrsta opinbera heimsókn forsetahjónanna í alllangan tíma, en opinberar heimsóknir hafa að mestu legið niðri í faraldrinum.

Eftir formlega móttöku á skrifstofum Langanesbyggðar tóku við heimsóknir á ýmsa staði á Þórshöfn, meðal annars í leikskólann Barnaból, hjúkrunar- og dvalarheimilið Naust, Grunnskóla Þórshafnar og íþróttahúsið. Þar reyndi forsetinn leikni sína á jafnvægisslá og sló á létta strengi með börnunum.

Mynd með færslu
 Mynd: Gréta Bergrún Jóhannesdóttir
Forsetahjónin fengu góðar gjafir frá börnunum á Þórshöfn

Eftir kaffisamsæti í félagsheimilinu Þórsveri á Þórshöfn halda Guðni og Eliza til Bakkafjarðar. Þar lýkur heimsókninni í Langanesbyggð með kvöldverði í boði sveitarfélagsins.

Á morgun heimsækja forsetahjónin Vopnafjörð og eftir að dagskránni þar lýkur annað kvöld fljúga þau heim á leið frá Egilsstöðum.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV