
Færeyingar taka við flóttamönnum fyrsta sinni
Jenis av Rana utanríkisráðherra Færeyja sagði í samtali við færeyska ríkisútvarpið KVF að lögþingið hyggðist í vikunni ræða færeyska útgáfu nýs dansks lagafrumvarps um móttöku hælisleitenda.
Þar er gert ráð fyrir að Danmörk taki við 20 þúsund manns en ráðherrann kvaðst gleðjast yfir samstöðu allra flokka um málið. Fyrstu flóttamennirnir frá Úkraínu komu til Færeyja 7. mars, hjón frá miðhluta landsins en dóttir þeirra býr í Færeyjum.
Hann sagði að áður en Rússar réðust inn í Úkraínu hafi ríkt ósætti meðal stjórnmálamanna í landinu um hvort Færeyingar skyldu taka á móti flóttafólki en nú hafi orðið alger stefnubreyting.
Upphaflega hafi verið ætlunin að aðeins yrði tekið á móti fólki frá Úkraínu en Jenis av Rana segir engum á flótta undan mannúðarkrísu verða vísað á dyr.
Norðurlandaráð hefur boðað utanríkisráðherra landanna til fundar í Svíþjóð í vikunni svo samhæfa megi hvernig tekið verði á móti fólki á flótta frá Úkraínu. Búist er við að Norðmenn taki við 100 þúsund Úkraínumönnum og Svíþjóð 75 þúsund.
„Þetta er í fyrsta sinn sem við Færeyingar tökum við flóttafólki,“ segir Jenis av Rana og bætir við að brýnt sé að læra af reynslu nágrannaríkjanna þegar kemur að móttöku flóttafólks.