Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Lifði helförina af en lést í árás Rússa

21.03.2022 - 19:35
Damaged vehicles sit among debris and in Kharkiv city center in Ukraine, Wednesday, March 16, 2022. (AP Photo/Pavel Dorogoy)
 Mynd: AP - RÚV
Úkraínskur maður sem lifði helför nasista af í seinni heimsstyrjöldinni lést í árás Rússa á borgina Kharkiv í Úkraínu.

Boris Romantschenko lést 96 ára að aldri í skotárás Rússa á íbúðarblokk sína á föstudag. Kharkiv er næst stærsta borg Úkraínu og í tæpan mánuð hefur hún verið undir nær stöðugum árásum Rússlandshers.

Forsvarsmenn minningarsjóðs Buchenwald og Mittelbau-Dora, útrýmingabúða á tímum helfararinnar, hafa lýst yfir gríðarlegri sorg í kjölfar fregnanna en Romantschenko var varaforseti sjóðsins.

„Við syrgjum náinn vin okkar og sendum syni hans og barnabörnum styrk á þessum erfiðu tímum,“ stendur í yfirlýsingu minningarsjóðsins.

Romantschenko fæddist í borginni Bondari þann 20. janúar 1926. Hann var handtekinn af nasistum eftir innrás í Sóvétríkin og farið var með hann til Þýskalands árið 1942 þar sem hann var látinn í nauðungarvinnu.

Eftir tilraun til að flýja árið 1943 var farið með hann í Buchenwald útrýmingabúðirnar, þar sem rúmlega 56 þúsund gyðingar voru myrtir.

rebekkali's picture
Rebekka Líf Ingadóttir
Fréttastofa RÚV