Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Búið að hreinsa upp eftir olíuleka á Suðureyri

21.03.2022 - 18:00
Hreinsun á olíu eftir olíuleka á Suðureyri
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Búið er að hreinsa dísilolíu, sem lak úr tanki Orkubús Vestfjarða, upp úr tjörninni og höfninni á Suðureyri í Súgandafirði. Fylgst verður með hvort mengunar gætir aftur þegar snjóa leysir.

Rúmar tvær vikur eru síðan meira en níu þúsund lítrar af olíu láku úr niðurgröfnum olíutanki við kyndistöð Orkubús Vestfjarða og þaðan í tjörnina og höfnina á Suðureyri. Olíulekinn hafði sérstaklega neikvæð áhrif á fuglalíf við eyrina og drápust hundruð æðarfugla eða voru aflífaðir í kjölfarið. Sigríður Kristinsdóttir, teymisstjóri mengunarvarna hjá Umhverfisstofnun, segir að hreinsun úr tjörninni og höfninni hafi gengið vel og klárast um helgina. Stormatíðin hafi komið sér vel. 

„Já, náttúran er best í því að sjá um niðurbrot á olíu og það vinnur þá með okkur." 

Nú skuli hafa auga með hvort mengunar verði aftur vart með breyttu veðurfari.

„Að starfsmenn Orkubúsins fylgist með tjörninni sérstaklega í vor þegar fer að leysa. Það verði fylgst vel með tjörninni hvort það komi einhver olía upp. Ég á ekki von á því samt," segir Sigríður.

Íbúafundur verður þá í þessari viku. Á fundinn mæta íbúar ásamt þeim sem að atvikinu komu með einum eða öðrum hætti. Þar á meðal Orkubú Vestfjarða og Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða.