Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Óttast að hátt matvælaverð auki á matarskort í heiminum

epa04931434 An archive picture made available on 15 September 2015 of combine-harvesters loading the grain in the lorry during the harvest works in Kiev region, Ukraine, 06 September 2010.  EPA/ROMAN PILIPEY
Úkraína er á meðal mestu framleiðenda og útflytjenda grunnmatvæla á borð við korn, kjöt og sykur í heiminum.  Mynd: epa
Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna óttast að hátt orkuverð og mikil verðhækkun á hvers kyns matvöru, sem hvort tveggja má að miklu leyti rekja má til innrásar Rússa í Úkraínu, geti valdið matarskorti um allan heim.

Matvælaverðsvísitala Sameinuðu þjóðanna, sem uppfærð er mánaðarlega, er nú hærri en nokkru sinni fyrr. Inni í henni er verð á kjöti, mjólkurvörum, korni, matarolíu og sykri um heim allan.

Rúmlega 800 milljónir líða skort

Samkvæmt Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna búa 811 milljónir Jarðarbúa við alvarlegan matarskort nú þegar og áætlað er að um 44 milljónir manna í 38 löndum sé á barmi hungursneyðar eða líði hungur nú þegar. Sagan sýnir að hátt verð á undirstöðumatvælum og öðrum nauðsynjum getur hæglega leitt til pólitísks óstöðugleika og jafnvel uppreisna.

Í frétt NRK segir að matvælavísitalan hafi síðast komist í námunda við núverandi hæðir í arabíska vorinu svokallaða árið 2011, og að hún sé rúmum þremur prósentum hærri nú en þá. 

Innrásin í Úkraínu veldur óvissu og verðhækkunum

Matvælaverð var mjög hátt í byrjun árs en innrásin í Úkraínu hefur hækkað það enn frekar. Annars vegar hefur hún leitt til mikilla verðhækkana og óvissu á gas- og olíumarkaði, sem aftur leiðir til aukins kostnaðar við matvælaframleiðslu.

Hins vegar veldur hún óvissu um framboð á matvælum, því Úkraína hefur verið einn helsti framleiðandi og útflytjandi heims á korni, sykri, matarolíu og fleiri grundvallarmatvælum um árabil. 

Haft er eftir Ruth Haug, prófessor í alþjóða- og þróunarmálum, að enn sé ekki skortur á matvælum í heiminum, hvað sem síðar verður. „En hafi fólk ekki ráð á matnum, þá skiptir það ekki öllu máli hvort það sé vegna dýrtíðar eða skorts,“ segir prófessorinn.