Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

1,5 milljónir barna á flótta

epa09833431 A child who fled Ukraine after the Russian war waits outside an immigration center office in Brussels, Belgium, 18 March 2022. The first temporary reception center for Ukrainian refugees has been closed due to the too low reception capacity and a new center with double capacity has opened at Palais 8 on the Heyzel plateau.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
Þetta úkraínska barn er í hópi hinna heppnu, ef hægt er að nota það orð um börn sem þurfa að flýja heimkynni sín. Myndin er tekin við móttökustöð flóttafólks í Brussel í Belgíu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Um 1,5 milljónir barna hafa flúið Úkraínu frá því að Rússar réðust inn í landið hinn 24. febrúar. Þetta er mat sérfræðinga Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, sem óttast að fjölmörg úr þeirra hópi kunni að lenda í klóm glæpamanna sem stunda mansal.

Aðstæður auka hættu á glæpum og mansali

Stríðið í Úkraínu hefur hrakið um eða yfir 10 milljónir á flótta, innan landsins og út úr því. „Þetta eru aðstæður sem geta haft stóraukið mansal í för með sér,“ segir Afshan Khan, svæðisstjóri UNICEF í Evrópu og Mið-Asíu. „Þetta er bráður og mikill vandi, og brýnt að tryggja öryggi og velferð barnanna,“ segir Khan.

Óttinn við stóraukið mansal þar sem börn eru fórnarlömbin skýrist af því að fjölmargar fjölskyldur sundrast á flóttanum af óviðráðanlegum ástæðum, og óprúttnir aðilar hika ekki við að nýta sér neyðina.

500 fylgdarlaus börn bara til Rúmeníu á 10 dögum

Samkvæmt gögnum UNICEF komu um 500 fylgdarlaus börn frá Úkraínu til Rúmeníu á fyrstu tíu dögum stríðsins. Eru þá ótalin öll þau fylgdarlausu börn sem komið hafa til Rúmeníu síðan, og til allra hinna landanna sem flóttamannastraumurinn liggur til. Alls hafa um eða yfir 3.3 milljónir flúið landið, þar af yfir tvær milljónir til Póllands.

Þá eru minnst 6.5 milljónir í hrakningum innan landamæra Úkraínu vegna stríðsins. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV