Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sprenging í fjölda rafmagnsbíla á einum áratug

epa09046411 Volvo Cars presents the company's new electric car model Volvo C40 Recharge, in Stockholm, Sweden, 02 March 2021.  EPA-EFE/Claudio Bresciani/TT SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT
Óhætt er að fullyrða að sprenging hafi orðið í fjölgun rafknúinna heimilisbíla undanfarinn áratug. Árið 2012 voru sex rafmagns- og raftengifjölskyldubifreiðar skráðar á Íslandi en undir lok síðasta árs voru þær rétt tæplega sautján þúsund.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt á vef Hagstofunnar. Fjöldi bensínknúinna fjölskyldubíla hefur hins vegar nánast staðið í stað í kring um 153 þúsund. Bifreiðum knúnum dísli og öðru eldsneyti hefur fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2010.

Slíkir bílar eru orðnir ríflega tvöfalt fleiri en þá eða tæp 85 þúsund samanborið við tæp 40 þúsund þá. Ísland hefur undanfarna áratugi verið ofarlega á blaði yfir þau lönd þar sem bílaeign er mikil. Samkvæmt nýjustu tölum er níunda sætið Íslendinga.

Ísland á topp tíu varðandi bílaeign

Í árslok voru hér á landi 733 fólksbílar fyrir hverja þúsund íbúa, sem er svipað og ári fyrr en rúm 275 þúsund fólksbílar voru þá skráðir og hafði fjölgað um tvö af hundraði við árslok 2020. 

Hverjir þúsund Bandaríkjamenn eiga 890 bíla og Nýsjálendingar 884. Samkvæmt samantekt markaðskönnunarfyrirtækisins Hedges & Company tróna þau tvö lönd á toppnum yfir hlutfallslega mesta bílaeign. Hverjir þúsund Rússar eiga 370 bifreiðar. 

Íbúar örríkisins San Marínó sem telur 34 þúsund íbúa eiga að meðaltali 1,3 bíla en hafa ber í huga að ekki eru allir þeirra á götum landsins sem 61,57 ferkílómetrar að stærð. Í öðru örríki, Mónakó eiga hverjir þúsund íbúar 910 bíla.

Fólk sem býr í Lýðstjórnarlýðveldisinu Kongó á fáa bíla, en þeir teljast vera fjórir á hverja þúsund, í Pakistan um það bil tuttugu og hverjir þúsund Víetnamar eiga tuttugu og fimm bíla.