Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Covid smitaðir geta fengið parkódín án lyfseðils

16.03.2022 - 07:29
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
COVID-19 sjúklingar geta frá og með deginum í dag fengið afhentar 10 töflur af Parkódín í apóteki án lyfseðils. Framvísa þarf vottorði úr Heilsuveru sem staðfestir smit. Þetta er undanþáguráðstöfun sem gildir í rúman mánuð, eða til 18. apríl.

Parkódín er sterkt verkjalyf sem inniheldur tvö virk efni, paracetamól og kódein. Lyfið getur dregið úr hósta, sem er algeng aukaverkun COVID-19. Það hefur verið lyfsseðilsskylt frá árinu 2005 þegar lyf sem innihalda kódein voru tekin úr lausasölu vegna misnotkunar. 

Vegna mikilla COVID-19 veikinda í þjóðfélaginu og álags á heilbrigðiskerfið hefur Lyfjastofnun í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins útfært þessa undanþágu. Þetta kemur fram á vef Lyfjastofnunar.

Til að hægt sé að fá parkódín afhent án lyfseðils þarf að framvísa vottorði úr Heilsuveru um staðfest COVID-19 smit. Vottorðið má ekki vera eldra en mánaðargamalt. Sæki einhver annar en sjúklingurinn sjálfur lyfið þarf viðkomandi að hafa gilt umboð til að sækja það og hafa meðferðis vottorð þess sem sótt er fyrir.