Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Rússar reknir úr Evrópuráðinu

Renforcer le processus décisionnel de l'Assemblée parlementaire concernant les pouvoirs et le vote                        Strengthening the decision-making process of the Parliamentary Assembly concerning credentials and voting
 Mynd: Candice Imbert - Evrópuráðsþingið
Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir það hafa verið stórkostlega stund þegar mikil samstaða náðist í Evrópuráðsþinginu um að vísa Rússum úr því.

Rússnesk stjórnvöld sögðu sig fyrr í dag úr Evrópuráðinu. Samt sem áður fór fram kosning á þingi ráðsins um að vísa þeim frá, Bjarni segir að það hafi verið gert til að brottvísunin hefði skýra lagalega þýðingu. 

„Það var stórkostleg stund hér áðan þegar það var samþykkt með 216 atkvæðum samhljóða að víkja þeim úr ráðinu og jafnframt að gefa skýr skilaboð til ráðherranefndarinnar varðandi þetta einnig. Það var ánægjulegt að spjalla hér áðan við sendiherra Úkraínu sem talaði um þennan dýrmæta og mikilvæga sigur sem hefði orðið í dag,“ sagði Bjarni í kvöld. 

Bjarni segir að á morgun verði fundað um hvernig ákvörðuninni verði fylgt eftir. 46 ríki eiga aðild að ráðinu, sem hefur meðal annars það hlutverk að standa vörð um mannréttindi.

Samhliða því að Rússar segja sig úr Evrópuráðinu segja þeir sig frá mannréttindasáttmála Evrópu. Sem þýðir að eftir sex mánuði munu rússneskir ríkisborgarar ekki getað leitað til mannréttindadómstólsins. Þá fara fjárframlög í ráðið eftir stærð ríkjanna, Bjarni segir að Rússland greiði um 11-16% heildarframlaga. „Það er margt til að hafa áhyggjur af líka,“ segir Bjarni því að Mannréttindadómstóll Evrópu skipti miklu máli og sérstaklega að geta sótt rétt sinn fyrir dómstólnum. „Síðan þurfa ríkin sem mynda ráðið að stíga inn og setja meiri fjármuni í starfsemina vegna þess að þarna fer það strax út úr starfseminni.“