Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Enn beita Kínverjar útgöngubanni í baráttu við veiruna

15.03.2022 - 05:54
epaselect epa09823650 A health worker in protective gear rests at the entrance to a residential compound currently under Covid-19 quarantine in Shanghai, China, 14 March 2022. The National Health Commission on 14 March reported over 1,300 new locally transmitted COVID-19 cases. According to the Shanghai Education Commission, all local elementary schools and high schools moved to online teaching while kindergartens and nursery schools have been closed since 11 March.  EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Næstum þrjátíu milljónir Kínverja sæta nú útgöngubanni um gjörvallt landið. Mikil fjölgun smita hefur leitt af sér upptöku fjöldasýnataka og sjá má heilbrigðisstarfsfólk í hlífðarbúningum á strætum stórborga.

Kínversk heilbrigðisyfirvöld greindu frá því í nótt að 5.280 ný kórónuveirutilfelli hefðu greinst þarlendis í gær.

Ný bylgja faraldursins er drifin áfram af omíkron-afbrigðinu smithæfa og dregur mjög úr möguleikum Kínverja á að halda aftur af útbreiðslunni með hefðbundnum aðferðum sínum.

Hingað til hefur verið gripið til útgöngubanns í hvert skipti sem nýrra smita verður vart, ferðatakmarkana og fleiri aðgerða. Fullt útgöngubann ríkir nú í minnst þrettán borgum og að hluta til í mörgum til viðbótar.

Verksmiðjur í iðnaðarborginni Shenzen eru flestar lokaðar og hillur stórmarkaða tæmast þar smám saman. Miklar ferðatakmarkanir eru í Shanghai stærstu borg Kína.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa orðið til þess að dregið hefur úr spurn eftir olíu í landinu sem talið er vera ein af ástæðum olíuverðslækkunar á heimsmarkaði í nótt.