Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Stefnt að stórþaravinnslu á Húsavík

14.03.2022 - 09:00
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Byggðarráð Norðurþings hefur samþykkt að hefja viðræður við Íslandsþara ehf um uppbyggingu stórþaravinnslu á Húsavík. Gert er ráð fyrir að allt að 85 störf skapist í kringum vinnsluna.

Fyrsta stórþaravinnsla landsins

Fyrirtækið stefnir á að afla stórþara úti fyrir Norðurlandi, þurrka hann með jarðvarma og vinna úr honum efni sem notuð eru meðal annars í matvæla- og lyfjaframleiðslu. Formleg beiðni hefur borist byggðarráði Norðurþings og segir Benóný Valur Jakobsson, varaformaður ráðsins, jákvæðni meðal nefndarmanna um verkefnið en slík vinnsla yrði sú fyrsta hér á landi.

„Þetta er stórþaravinnsla en fyrirtækið Íslandsþari fékk rannsóknar- og nýtingarleyfi að taka allt að 40.000 tonn á ári næstu 5 árin til að nýta. Þetta er mjög stórt. Við lönduðum rétt um 3000 tonnum á fiski á síðasta ári þannig að 40.000 tonn af þara, þetta er stórt,“ segir Benóný.

Höfðu áður fengið lóð

Fyrir tæpum tveimur árum hafði fyrirtækið fengið vilyrði fyrir lóð á Húsavík en eftir nánari athugun þótti sú lóð ekki henta starfseminni. Lóðin sem nú er sótt um, er um 10.000 fermetrar og við höfnina. Ef leyfi fæst og starfsemin fer í gang geta allt að 85 störf skapast á 5-6 ára tímabili. Benóný segir ljóst að bæjarbúum þurfi að fjölga talsvert til að manna vinnsluna.

„Af því að stór hluti af þessum störfum í þaraverksmiðjunni eru sérhæfð störf fyrir líffræðinga og efnafræðinga og svo framvegis. Sem náttúrulega ekki búa á Húsavík og eru atvinnulausir alla vega.“

Verður kynnt fyrir íbúum

Síðustu þrjú ár hefur töluvert verið byggt á Húsavík og eftirspurn eftir lóðum er mikil. Benóný segir að nú sé orðið raunhæft að byggja og selja fasteignir þar sem fasteignaverð hafi hækkað. 

En hver eru næstu skref?

„Já það er bara vonandi að við náum einhverjum samningum um lóðina. Það er svo sem næsta mál. Það stendur til íbúafundur á næstu vikum. Þannig að allir séu meðvitaðir um hvað er að fara að gerast,“ segir Benóný.