Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Talsvert um ölvun og óspektir í borginni í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Talsvert var um ölvun og óspektir í höfuðborginni í gærkvöld og í nótt samkvæmt tilkynningu lögreglunnar á svæðinu. Tilkynningar bárust um ofurölvi fólk, um árásir og gripdeildir og eignaspjöll.

Lögregla handtók tvo sem grunaðir eru um að ráðast að dyravörðum á skemmtistað í miðborginni. Málið er enn til rannsóknar og ekki upplýsingar um slys á fólki. Sambærilegt mál kom einnig upp á skemmtistað annarsstaðar í borginni, þar sem óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna aðila sem réðist að dyraverði. Hinn grunaði gat ekki „tjáð sig vitsmunalega“ við lögreglu, er fram kemur í dagbók. Hann var því vistaður í fangaklefa.

Skemmtistað í miðborginni var lokað í gærkvöldi þegar í ljós kom við reglulegt eftirlit að rekstrarleyfi hans var útrunnið. 

Lögregla hafði einnig afskipti af fjölda ökumanna sem grunaðir voru um að keyra undir áhrifum vímuefna. Tilkynning barst um mann sem gekk bíla á milli og var grunaður um innbrots tilraunir, en sá var ölvaður að reyna að koma sér heim.

Olofre's picture
Ólöf Rún Erlendsdóttir