Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Gagnrýni á framgöngu Rússa í þarlendum sjónvarpsþætti

epa09046558 A view of buildings of Moscow's Kremlin in Moscow, Russia, 02 March 2021  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Heyra mátti gagnrýni á innrásina í Úkraínu í þætti á sjónvarpsstöðinni Rossiya 1 nú í vikunni. Viðmælendur Vladimirs Soloviev, sem er mikill stuðningsmaður Vladimírs Pútín forseta, voru afar þungorðir og drógu réttmæti innrásinnar mjög í efa.

Allmargir miðlar greina frá þessu, þeirra meðal breska ríkisútvarpið og Evening Standard. Háskólamaðurinn Semyon Bagdasarov spurði Soloviev hvort Rússar hefðu áhuga á því þurfa að þola annað Afganistan - en þó miklu verra.

Þar vísaði hann til innrásar Sovétmanna í landið 1979 og hernáms sem lyktaði með algerri niðurlægingu þeirra tíu árum síðar. Fræðimenn álíta að til þess tíma megi að nokkru leyti rekja fall Sovétríkjanna tveimur árum síðar.

Bagdasarov sagði Úkraínumenn mun fleiri en Afgani og að þeir kynnu mun betur með vopn að fara. Kvikmyndagerðarmaðurinn Karen Shakhnazarov tók undir með Bagdasarov og sagðist ekki geta ímyndað sér að rússneskir hermenn geti náð yfir borgum á borð við höfuðborgina Kyiv.

Hann sagði sömuleiðis að stríðið einangraði Rússa algerlega, jafnvel frá bandalagsríkjum á borð við Kína og Indland. Það ætti einkum við ef mannúðarástand í Úkraínu hnignaði mjög.

Því krafðist Shakhnazarov þess að látið yrði umsvifalaust af hernaði í Úkraínu. Það þykir harla óvanalegt að slík orð falli í þætti Solovievs enda hefur hann lýst mikilli andúð í garð Úkraínu og stuðningi við ríkisstjórn Rússlands.

Hann hefur vegna þess verið settur á lista Evrópusambandsins yfir þá einstaklinga sem beittir eru efnahagsþvingunum. Meðal annars glæsihýsi hans á Ítalíu verið gert upptækt.